5 látnir vegna e.coli bakteríu í salati

Talið er að salatið sem smitið var í sé svo …
Talið er að salatið sem smitið var í sé svo nefnt romaine salat. mbl.is/Jim Smart

Fimm manns eru látin eftir að e.coli baktería greindist í salati í Bandaríkjunum og segir BBC að tilkynnt hafi verið um 197 tilfelli í 35 ríkjum. 89 þeirra sem veikst hafa hafa þurft að leggjast inn á spítala og 26 hafa þróað með sér nýrnasjúkdóm vegna bakteríunnar.

Bandaríska sóttvarnarmiðstöðin (CDC) segir að tilkynnt hafi verið um rúmlega 25 manns til viðbótar sem hafi sýkst frá því að CDC sendi síðast frá sér skýrslu um málið um miðjan maí.

Tveir hinna látnu voru frá Minnesota og hinir þrír voru frá Arkansas, Kaliforníu og New York.

Er þetta umfangsmesta útbreiðsla e.coli bakteríu í Bandaríkjunum frá 2006, þegar 200 manns veiktust.

Í yfirlýsingu CDC segir að margir þeirra sem nú eru veikir, hafi sýkst fyrir 2-3 vikum síðan þegar salatið var enn í hillum verslana.

Talið er að salatið hafi allt komið frá sama stað í Yuma héraði í Arizona, en rannsókn á málinu er þó enn í gangi.

Í einhverjum tilfellum hafði fólk ekki neytt salatsins sjálft, heldur hafði það smitast eftir að hafa verið í samskiptum við einstaklinga sem borðuðu salatið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert