Beðnir um að sleppa mykjunni

Kýr njóta þess að hlaupa út í vorið. Mynd úr …
Kýr njóta þess að hlaupa út í vorið. Mynd úr safni. Bændur í Quebec eru nú beðnir um að bíða með að bera mykju á tún sín þar til G7 leiðtogafundinum er lokið. AFP

Bændur í Charlevoix í Quebec héraði í Kanada, þar sem leiðtogar G7 ríkjanna funda í næstu viku, hafa verið beðnir um að sleppa því að bera mykju á akra sína í aðdraganda fundarins.

Markmiðið er að koma vel fyrir og auka aðdráttarafl Charlevoix fyrir ferðamenn og sleppa leiðtogum Bretlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Japans og Bandaríkjanna við að finna kúamykjulyktina.

„Við biðjum ykkur um að sýna samstarfsvilja svo dvöl gestanna í héraði okkar verði þeim jafn ánægjuleg og mögulegt er,“ sagði í bréfi sem landsbúnaðarráðherra Quebec sendi samtökum bænda.

Bændurnir sem eftir langan vetur hafa ekki getað byrjað að yrkja akra sýna fyrr en í síðustu viku, sem er nokkuð síðar en venjulega, eru ekki sáttir með beiðnina.

„Að biðja bændur um að hætta starfsemi sinni setur uppskeru þeirra í hættu,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Andre Villeneuve, sem er félagi í stjórnarandstöðuflokki Quebec.

Landbúnaðarráðherra héraðsins, Laurent Lessard, leggur hins vegar áherslu á tækifærin sem felist í því fyrir héraðið að G7 fundurinn sé haldinn þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert