Flutti út eftir Legó-rifrildi við pabba

Michael Rotondo, þrítugur sonur hjónanna Christina og Mark, er nú …
Michael Rotondo, þrítugur sonur hjónanna Christina og Mark, er nú fluttur að heiman og ætlar ekkert að hafa saman við foreldra sína að sælda. Ljósmymd/Google Maps

Michael Rotondo, sem dómstóll í New York úrskurðaði í síðasta mánuði að verði að flytja að heiman, er nú loksins fluttur út. Það gerði hann þó ekki fyrr en hann var búinn að siga lögreglunni á pabba sinn vegna rifrildis um Legó-kubba að því er BBC greinir frá.

Að sögn bandarískra fjölmiðla yfirgaf hann heimili foreldra sinna nokkrum klukkutímum áður en fresturinn sem dómari gaf honum til að yfirgefa húsið rann út.

Foreldrar hans höfðuðu mál gegn syni sínum, eftir að hafa reynt frá því í febrúar að fá hinn þrítuga Rotondo til að flytja að heiman. Hann flutti aft­ur í heima­hag­ana fyr­ir átta árum þegar hann missti vinn­una. For­eldr­um hans fannst hins veg­ar nóg komið, þar sem Michael borg­ar hvorki leigu né hjálp­ar til við hús­verk­in. Þau gripu því til þess örþrifaráðs að lög­sækja son­inn. 

Rotondo sagði blaðamönnum, sem voru samankomnir við heimili fjölskyldunnar, að hann hefði kallað til lögreglu af því að faðir hans hefði ekki leyft honum að ná í Legó-kubba hans niður í kjallara. Dagblaðið Post-Standard segir föður hans, Mark Rotondo, hins vegar hafa neitað að hleypa syninum aftur inn og að hann hafi þess í stað vilja sækja kubbana sjálfur.

Búið var að finna kubbana áður en lögregla kom á staðinn.

Michael Rotondo hefur sagt fjölmiðlum að hann ætli að höfða mál til að fá yfirráð yfir syni sínum.

Þá vilji hann ekkert frekar hafa saman við foreldra sína að sælda þegar hann er fluttur út.  Fyrst ætli hann að dvelja í viku í Airbnb-íbúð sem hann hafi leigt í Syracuse fyrir það fé sem hann hafi fengið greitt fyrir að segja sögu sína í fjölmiðlum og að því loknu ætlar hann að flytja inn til fjarskylds frænda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert