Stolið úr tösku Kanu á flugvellinum

Nwankwo Kanu.
Nwankwo Kanu. Wikipedia/ Chensiyuan

Nígeríumaðurinn Nwankwo Kanu, sem áður var fyrirliði landsliðsins og sóknarmaður hjá Arsenal, varð fyrir því óhappi að stolið var úr ferðatösku hans á flugvellinum í Moskvu um helgina. Alls var 11 þúsund Bandaríkjadölum stolið úr ferðatösku hans en þar svarar til 1,3 milljóna króna. 

Kanu, sem er 41 árs að aldri, millilenti á Sheremetyevo-flugvellinum í Moskvu á leið sinni til Kaliningrad frá London. Hann er einn þeirra sem tóku þátt í vináttuleik í gær í tilefni af HM í Rússlandi síðar í mánuðinum. Viðburðurinn nefnist  Relive the Legends og þar keppti úrval goðsagna í knattspyrnunni. Leikurinn fór 6-4 fyrir liði Kanu. 

TASS fréttastofan hefur eftir rússnesku lögreglunni að tveir starfsmenn í hleðslu á flugvellinum hafi stolið peningunum úr tösku Kanu. Þeir hafi verið handteknir og að Kanu fái peningana sína til baka.

Allt um leikinn á vef FIFA

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert