Kanadaþing samþykkir kannabisfrumvarp

Þessi fáni hefur orðið einkennistákn kannabissstuðningsmanna í Kanada.
Þessi fáni hefur orðið einkennistákn kannabissstuðningsmanna í Kanada. AFP

Neðri deild kanadíska þingsins samþykkti í dag frumvarp sem heimilar kannabisreykingar. Frumvarpið hlaut samþykki 205 þingmanna en 82 voru á móti. Löggjöfin fer nú til öldungadeildarinnar, sem gæti hægt á framgangi þess, en ekki komið í veg fyrir hana.

Talið er líklegt að lögin taki gildi í september, að sögn Bill Blair talsmanns ríkisstjórnar Frjálslynda flokksins. Í síðustu viku hafnaði ríkisstjórnin 13 af 46 breytingartillögum sem öldungadeildin lagði til. Ginette Petitpas Taylor heilbrigðisráðherra varði meðal annars ákvæði um að heimila heimaræktun kannabiss. „Kanadamenn mega brugga bjór og vín heima,“ sagði hún máli sínu til stuðnings. Löggjöfin gerir ráð fyrir að fólki verði heimilt að rækta allt að fjórar plöntur heima hjá sér til einkanota.

Lögleiðing kannabiss var eitt stefnumála Frjálslynda flokks Justin Trudeau forsætisráðherra í kosningunum 2015 en hann hefur aðspurður játað að hafa reykt gras með vinum sínum „fimm eða sex sinnum“.

Upphaflega stóð til að lögin tækju gildi 1. júlí, á þjóðhátíðardegi Kanada, en nú er ljóst að svo verður ekki. Hagstofa Kanada hefur ráðgert að virði kannabissölu verði um 5,7 milljarðar Kanadadollara, eða sem jafngildir 470 milljörðum króna á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka