Fannst látin í þurrkskáp

Macdonalds Plas Talgarth-hótelið í Wales.
Macdonalds Plas Talgarth-hótelið í Wales. Telegraph

Elizabeth Mary Isherwood, sextug bresk kona, fannst látin á Macdonalds Plas Talgarth-hótelinu í Wales eftir að hafa óvart læst sig inni í þurrkskáp hótelsins. Talið er að hún hafi verið læst þar inni í nokkra daga áður en lík hennar fannst. Þetta kemur fram í frétt Telegraph.

Isherwood var ein á ferð í fríi á hótelinu. Hún vaknaði um miðja nótt og talið er að hún hafi ætlað að fara á baðherbergið, ruglast á dyrum og óvart farið inn í þurrkskápinn sem læstist á eftir henni en skápurinn var afar þröngur og ljóslaus með öllu. Þar reyndi hún að berja í hurðir og veggi og kalla á hjálp í sólarhring, en að sögn fjölskyldu Isherwood töldu gestir hótelsins að um hávaða frá framkvæmdum hótelbyggingarinnar væri að ræða.  

„Ég get ekki sagt til um hvenær hún lokaðist inni í klefanum, en hún gæti hafa verið þarna inni í nokkra daga, og reynt að komast út,“ er haft eftir réttarmeinafræðingi innanríkisráðuneytis Bretlands.

Í ofvæni braut Isherwood bút úr koparpípu í skápnum til þess að brjótast í gegn um gifsplötuna, en kalt vatn sprautaðist úr rörinu í kjölfarið. Kalda vatnið úr rörinu sem úðaðist yfir líkama hennar leiddi til þess að hún lést úr ofkælingu að sögn yfirmanns krufningarinnar.  

Fjölskylda hennar íhugar nú málsókn gegn hótelkeðjunni. Sonur hennar sagði í samtali við Telegraph að hún hefði ekki einu sinni náð að taka alveg upp úr töskunum sínum áður en hún læstist inni.

„Við erum algjörlega niðurbrotin. Mamma var svo íþróttamannsleg, í góðu formi, heilbrigð og elskaði að spila golf. Ef einhver hefði getað komist út úr þessu rými hefði það verið hún,“ segir sonur Isherwood.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert