Kanada lögleiðir kannabis

Aðdáendur kannabisefna í Kanada geta fagnað í dag.
Aðdáendur kannabisefna í Kanada geta fagnað í dag. AFP

Kanadíska þingið hefur nú samþykkt lög sem heimila neyslu kannabis. Kannabislögin (e. The Cannabis Act), eins og þau hafa verið nefnd, voru samþykkt í öldungadeild kanadíska þingsins í gær með 52 atkvæðum á móti 29. Þetta kemur fram á vef BBC.

Lögin hafa verið til umræðu lengi og hafa þau tekið breytingum í ferlinu sem gert hefur það að verkum að kjósa hefur þurft oftar en einu sinni um lögin í öldungadeild og neðri deild kanadíska þingsins.

Kanada er annað landið í heiminum sem lögleiðir neyslu kannabis í öðrum en læknisfræðilegum tilgangi. Úrúgvæ gerði það 2013 og þá hafa níu ríki í Bandaríkjunum gert það.

Reiknað er með því að lögin taki gildi í september. Hver einstaklingur sem hefur náð lögaldri mun þá mega að hafa allt að 30 grömm í fórum sínum. Það verður einnig heimilt að rækta allt að fjórar kannabisplöntur á hverju heimili. 

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, var ánægður með niðurstöðu atkvæðagreiðslu þingsins og tjáði sig á Twitter-síðu sinni. Lögleiðing kannabisefna var eitt af kosningaloforðum hans árið 2015.



Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka