Kanadíska þingið hefur nú samþykkt lög sem heimila neyslu kannabis. Kannabislögin (e. The Cannabis Act), eins og þau hafa verið nefnd, voru samþykkt í öldungadeild kanadíska þingsins í gær með 52 atkvæðum á móti 29. Þetta kemur fram á vef BBC.
Lögin hafa verið til umræðu lengi og hafa þau tekið breytingum í ferlinu sem gert hefur það að verkum að kjósa hefur þurft oftar en einu sinni um lögin í öldungadeild og neðri deild kanadíska þingsins.
Kanada er annað landið í heiminum sem lögleiðir neyslu kannabis í öðrum en læknisfræðilegum tilgangi. Úrúgvæ gerði það 2013 og þá hafa níu ríki í Bandaríkjunum gert það.
Reiknað er með því að lögin taki gildi í september. Hver einstaklingur sem hefur náð lögaldri mun þá mega að hafa allt að 30 grömm í fórum sínum. Það verður einnig heimilt að rækta allt að fjórar kannabisplöntur á hverju heimili.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, var ánægður með niðurstöðu atkvæðagreiðslu þingsins og tjáði sig á Twitter-síðu sinni. Lögleiðing kannabisefna var eitt af kosningaloforðum hans árið 2015.
It’s been too easy for our kids to get marijuana - and for criminals to reap the profits. Today, we change that. Our plan to legalize & regulate marijuana just passed the Senate. #PromiseKept
— Justin Trudeau (@JustinTrudeau) June 20, 2018