Reiði og sorg í Japan

AFP

„Ég var að senda litlu stelpuna mína í skólann [þegar jarðskjálftinn reið yfir]. Við erum á 5. hæð í blokk og hún hristist mjög mikið og það myndaðist slatti af nýjum sprungum,“ segir Þórunn Jóhannsdóttir sem býr í Osaka í Japan ásamt eiginmanni sínum og börnum.

Öflugur jarðskjálfti reið þar yfir á mánudagskvöld og í kjölfarið fylgdu nokkrir stórir eftirskjálftar með þeim afleiðingum að minnst fimm manns létust og tæplega 400 manns slösuðust. Meðal þeirra látnu var níu ára stúlka sem varð undir vegg á leið sinni í skóla.

Reiði og sorg

Þórunn segir hræðsluástand minna núna en í kjölfar jarðskjálftans og flóðbylgjunnar sem reið yfir Japan fyrir nokkrum árum en Japanir séu þó smeykir við að stærri skjálftar fylgi í kjölfarið enda sé búið að vara við því í fjölmiðlum.

Hún segir reiði og sorg ríkja í Japan og þá sérstaklega vegna níu ára stúlkunnar sem dó á leið sinni í skólann þegar veggur hrundi yfir hana. Komið hefur fram í fjölmiðlum þar ytra að veggurinn hafi ekki verið byggður á réttan hátt og að því hafi hann hrunið. Veggurinn var við skóla stúlkunnar og því á ábyrgð yfirvalda.

Sorg ríkir í Japan vegna andláts ungrar stúlku í kjölfar …
Sorg ríkir í Japan vegna andláts ungrar stúlku í kjölfar jarðskjálftans. AFP

Býr í húsnæði á vegum hersins

Fjölskylda Þórunnar býr í húsnæði á vegum hersins við herstöð þar sem að eiginmaður hennar er í japanska hernum. Herinn var því fljótur að senda herlið á vettvang og tryggja öryggi íbúa. „Ég er á sérsamning miðað við þann almenna Japana. Það er stutt að fara á herstöðina,“ segir hún.

Þórunn segist ekki hafa orðið hrædd enda búið í Japan í tíu ár og því ýmsu vön. Þetta var þó stærsti skjálfti sem hún hefur upplifað. Móðir hennar, sem var í heimsókn hjá henni, var aftur á móti hrædd enda enn að jafna sig eftir Suðurlandsskjálftann sem eyðilagði heimili hennar í Hveragerði árið 2008.

Hún segir mikla eyðileggingu hafa átt sér stað og að töluverðan tíma muni taka að laga skemmdir. „Mjög mörg hús eru orðin þaklaus. Það er búið að setja dúka yfir þau. Vegir sigu og holur mynduðust. Það sprungu fullt af vatnspípum,“ segir Þórunn þegar hún lýsir aðstæðum.

Þórunn Jóhannsdóttir, eiginmaður hennar Yuichiro Kinoshita og börn þeirra Snæþór …
Þórunn Jóhannsdóttir, eiginmaður hennar Yuichiro Kinoshita og börn þeirra Snæþór Yuiji og Yukina Snædís. Á myndinni eru einnig foreldrar Þórunnar, þau Þórstína Ólafsdóttir og Jóhann Karlsson. Ljósmynd/Aðsend

Reyndi að rifja upp leiðbeiningar

„Allt herbergið mitt hristist á fullu, það voru hlutir að detta úr hillum. Ég var hálfsofandi ennþá og var ekki viss hvort mig væri að dreyma eða ekki,“ segir Guðmundur Garðar Árnason, íslenskur skiptinemi í Osaka í Japan.

Guðmundur Garðar fann vel fyrir skjálftanum enda býr hann um 26 kílómetra frá upptökum hans. Skjálftinn reið yfir um klukkan átta að morgni til á staðartíma og var Guðmundur því enn í rúminu þegar allt byrjaði að nötra.

Aðspurður hvort hann hafi ekki orðið óttasleginn þá viðurkennir Guðmundur að hafa orðið „smá hræddur“ en fyrst og fremst hafi hann af fremsta megni reynt að rifja upp hvernig eigi að haga sér á meðan jarðskjálfti stendur yfir. Þegar hann fór í námið til Japan fékk hann upplýsingar frá skólanum um það hvernig eigi að bera sig að í slíkum aðstæðum enda jarðskjálftar mjög tíðir þar í landi.

„En þetta leið hratt yfir, tuttugu sekúndur kannski,“ bætir hann við.

Guðmundur segir fólk hafa í byrjun óttast að stærri skjálftar og jafnvel flóðbylgja myndu fylgja í kjölfarið en það sé nú sem betur fer búið að útiloka flóðbylgju. Yfirvöld hafa þó varað við eftirskjálftum næstu daga og skriðuföllum á svæðinu sem næst er upptökum skjálftans.

Guðmundur Garðar Árnason er í skiptinámi í Japan.
Guðmundur Garðar Árnason er í skiptinámi í Japan. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert