Hvað verður um börnin?

Frá mótmælum í New York í gær.
Frá mótmælum í New York í gær. AFP

Hvað verður um börnin sem þegar hafa verið aðskilin frá foreldrum sínum á landamærum Bandaríkjanna eftir að Bandaríkjaforseti undirritaði tilskipun um að binda enda á aðskilnaðinn? Spurning sem ekki enn hefur verið svarað en alls voru 2.342 börn tekin frá 2.206 foreldrum 5. maí til 9. júní.

„Við verðum að vera með öflug - mjög öflug - landamæri, en við verðum að halda fjölskyldum saman,“ sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, þegar hann undirritaði tilskipunina í Hvíta húsinu í gær. Hann sagðist ekki hafa verið sáttur við þá sýn sem blasti við -  að fjölskyldum hafi verið sundrað.

Heimavarnaráðherra, Kirstjen Nielsen og varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, fylgjast grannt …
Heimavarnaráðherra, Kirstjen Nielsen og varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, fylgjast grannt með forseta landsins, Donald Trump, undirrita tilskipunina. AFP

Þrátt fyrir að búið sé að binda endi á aðskilnað fjölskyldna þá er málið ekki í höfn. Alríkisdómari getur neitað að veita stjórnvöldum heimild sem þau óska eftir um að fá að halda fjölskyldum í varðhaldi lengur en 20 daga en samkvæmt dómsúrskurði frá árinu 1997 má ekki halda fjölskyldum lengur en í þann tíma. 

Eins nær forsetaúrskurðurinn ekki til þeirra rúmlega 2.300 barna sem þegar hafa verið aðskilin frá foreldrum sínum á grundvelli ákvörðunar Trump að sýna flóttafólki (migrant) ekkert umburðarlyndi. Strax eftir að forsetinn tilkynnti um breyttar áherslur sögðu fulltrúar alríkisins að ekki væri átt við börn og foreldra þeirra sem þegar eru í haldi á vegum alríkisstjórnarinnar á meðan farið er yfir hælisumsókn þeirra.

Tveggja ára gömul stúlka frá Hondúras sést hér grátandi þegar …
Tveggja ára gömul stúlka frá Hondúras sést hér grátandi þegar leitað er á móður hennar og hún handtekin á landamærum Mexíkó í Texas. AFP

Trump var beittur miklum þrýstingi áður en hann skrifaði undir í gær. Ekki bara frá andstæðingum sínum í stjórnmálum heldur einnig samherjum innan Repúblikanaflokksins. Eins hafði hann sætt harðri gagnrýni alþjóðasamfélagsins. Mörgum blöskraði sá aðbúnaður sem beið barnanna og ekki síður aðferðum sem var beitt - börn nánast rifin úr fangi foreldra sinna. Jafnvel smábörn, svo vitnað sé til bandarískra fjölmiðla.

Svo virðist sem enginn viti hvert framhaldið verður. Í fyrstu héldu yfirmenn velferðarkerfisins því fram að börnin, sem þegar eru komin til landsins, yrðu áfram aðskilin frá foreldrum sínum en nokkru síðar var sagt að ekki hafi verið upplýst um hvernig staðið yrði að framkvæmdinni. Enn væri of snemmt að segja til um það. 

„Sameining að nýju er alltaf loka takmarkið,“ segir Brian Marriott, framkvæmdastjóri HHS Administration of Childrenand Families, í samtali við New York Times.

Réttur barna er fólki ofarlega í huga þessa dagana.
Réttur barna er fólki ofarlega í huga þessa dagana. AFP

Ólöglegir innflytjendur settir framar bandarískum þegnum

Trump ræddi við stuðningsmenn sína í Minnesota í gærkvöldi og þar sagði hann að fjölskyldum yrði haldið saman en gæslan á landamærunum verði jafn öflug og áður. Hann hélt sínu striki og sakaði demókrata um að bera ábyrgð á þessu öllu. Þeir setji ólöglega innflytjendur framar bandarískum þegnum. Svipuð orðræða og hann hefur notað ítrekað áður og margir aðrir, að hælisleitendur fái betri þjónustu en þegnar viðkomandi lands. 

Hvað segja lögin?

Undanfarnar vikur hefur Trump haldið því fram að hann sé skuldbundinn samkvæmt lögum til þess að skilja börn að frá foreldrum sínum og aðeins þingið geti leyst vandamálið. Aftur á móti hefur verið á það bent að hvergi sé kveðið á um það í bandarískum lögum að það eigi að skilja fjölskyldur að en það er ekki bannað samkvæmt lögum.

Í gær skipti hann um stefnu og undirritaði tilskipunina enda hafði dóttir hans og hans helsti ráðgjafi, Ivanka Trump, hvatt hann til þess að binda endi á aðskilnaðinn. Eiginkona hans, Melania Trump, hafi einnig stigið óvanalegt pólitískt skref með því að segja að landið þurfi stjórn með hjarta.

„Við viljum tryggja öryggi lands okkar,“ sagði forsetinn í gær. „Og við munum halda því á sama tíma og við sýnum samkennd.“

Mendez fjöskyldan er frá El Salvador og bíður í móttökumiðstöð …
Mendez fjöskyldan er frá El Salvador og bíður í móttökumiðstöð í Tijuana. AFP

Samkvæmt tilskipuninni mun heimavarnaráðuneytið bera ábyrgð á fjölskyldunum en samkvæmt fyrri stefnu deildi ráðuneytið þeirri ábyrgð með dóms- og heilbrigðis- og mannúðarráðuneytinu.

Eins er gefið til kynna að ríkisstjórnin ætli sér að halda fjölskyldum um ótakmarkaðan tíma og þar með skora núverandi stöðu á hólm, Flores-samkomulagið frá 1997, en þar er kveðið á um að ekki megi halda börnum, hvort sem það er í fylgd foreldra eða án, lengur en 20 daga í varðhaldi. 

Ef slakað er á þá yfirfyllist landið segir Trump

Trump segir nauðsynlegt að halda í stefnu hans um ekkert umburðarlyndi til þess að koma í veg fyrir glæpi sem hann segir ólöglega innflytjendur bera ábyrgð á.

„Við megum ekki slaka á seiglunni að öðrum kosti yfirfyllist landið okkar af fólki, af glæpum, að öllum þessum hlutum sem við viljum ekki og stöndum ekki fyrir,“ segir Trump.

Á alþjóðlegum degi flóttafólks í gær gagnrýndu margir af helstu leiðtogum heims og eins yfirmenn mannúðarsamtaka stefnu Bandaríkjanna í þessum málum. Má þar nefna forsætisráðherra Bretlands, Theresa May og Kanada, Justin Trudeau. Auk Evrópuráðsins og Frans páfa.

Tjaldbúðir sem verið er að reisa íTornillo, Texas.
Tjaldbúðir sem verið er að reisa íTornillo, Texas. AFP

May sagði að myndir af flóttabörnum sem væri haldið í einingum sem minni helst á búr séu afar óhugnanlegar og Evrópuráðið sagði að með þessu hafi Trump afsalað sér endanlega heimild til þess að gera tilkall til þess að vera siðferðisleiðtogi heimsins. 

Frá því í október hefur flóttafólki (migrants) frá Gvatemala, El Salvador og Hondúras sem reynir að komast til Bandaríkjanna fjölgað mikið. Eins frá Mexíkó. Frá mars til maí í ár komu yfir 50 þúsund á mánuði yfir landamæri Mexíkó til Bandaríkjanna með ólöglegum hætti.

Á sama tíma hefur réttarkerfið ekki undan og í gær tilkynnti varnarmálaráðuneytið að 21 lögmaður hjá hernum yrði færður til dómsmálaráðuneytisins í sex mánuði til þess að veita aðstoð við saksókn fólks sem reynir að koma með ólögmætum hætti inn í landið. Nánast allar þær fjölskyldur sem hafa komið og fjölmargir aðrir hafa sótt um hæli í Bandaríkjunum. Í nánast öllum tilvikum hefur fólkið borið fyrir sig ofbeldi í heimalandinu. 

AFP
Stuðningsmenn Donald Trump í Minnesota í gærkvöldi.
Stuðningsmenn Donald Trump í Minnesota í gærkvöldi. AFP
Angelica og barnabarn á landamærum Mexíkó.
Angelica og barnabarn á landamærum Mexíkó. AFP
Móttökumiðstöð í McAllen,Texas.
Móttökumiðstöð í McAllen,Texas. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert