500 manns myrtir af handahófi í Venesúela

Öryggissveitir í Venesúela hafa myrt yfir 500 borgara, af handahófi, …
Öryggissveitir í Venesúela hafa myrt yfir 500 borgara, af handahófi, á síðustu þremur árum, að því er fram kemur í skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum. AFP

Öryggissveitir í Venesúela hafa myrt yfir fimm hundruð manns á síðustu þremur árum í aðgerðum þar sem fórnarlömb eru drepin af handahófi undir því yfirskyni að verið sé að berjast gegn glæpum.

Í nýrri skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum um aðgerðirnar sem BBC greinir frá má finna sláandi lýsingar á aðgerðum öryggissveitanna sem hafi oftast látið til skarar skríða gegn ungum karlmönnum í fátækari hverfum landsins.

Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, Zeid Ra'ad Al Hussein, segir að enginn hafi verið dreginn til ábyrgðar fyrir aðgerðirnar hingað til, sem gefur til kynna að ekki sé farið eftir lögum og reglum í landinu. Tilgangur skýrslunnar er að breyta því en yfirvöld í Venesúela hafa hingað til hunsað allar ásakanir um mannréttindabrot og segja staðhæfingar í skýrslunni vera ósannar.

Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni tilheyra liðsmenn öryggissveitanna samtökum sem kalla sig „Aðgerðahópur um frelsun fólksins,“ sem er eins konar framtak til höfuðs glæpagengjum í landinu. Áætlað er að öryggissveitirnar hafi myrt yfir 500 manns frá því í júlí 2015 í þeim tilgangi að sýna yfirvöldum fram á að árangur hafi náðst í baráttunni gegn glæpum.

Niðurstöður skýrslunnar byggir á frásögnum yfir 150 vitna og aðstandendanna hinna látnu. Rannsakendum á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur verið meinaður aðgangur að landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert