Skokkaði óvart yfir landamærin

Búðir fyrir meinta ólöglega innflytjendur eru ekki aðeins við landamæri …
Búðir fyrir meinta ólöglega innflytjendur eru ekki aðeins við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna heldur einnig í norðri. AFP

Ung, frönsk kona sem var að heimsækja móður sína í vesturhluta Kanada eyddi tveimur vikum í fangabúðum eftir að hafa óvart farið yfir landamærin til Bandaríkjanna er hún var að skokka eftir ströndinni. 

Cedella Roman er nítján ára. Hún var að skokka rétt sunnan við bæinn White Rock í British Columbia í Kanada er hún hljóp yfir landamærin til Washington-ríkis að kvöldi 21. maí. Roman hefur nú sagt sögu sína í útvarpsviðtali við CBC. 

Hún snéri við er flæða tók að og fór þá upp á moldarstíg þar sem hún stoppaði til að taka mynd af fallegu útsýni. Hún snéri svo við og fór til baka. Það var þá sem hún mætti tveimur bandarískum landamæravörðum sem sögðu henni að hún hefði komið ólöglega til Bandaríkjanna og að það hefði náðst á myndavél.

„Ég sagði þeim að ég hefði ekki gert það viljandi og að ég skyldi ekki hvað væri í gangi,“ segir hún í samtali við CBC. Roman segist ekki hafa séð nein viðvörunarskildi og sagðist í fyrstu ekki hafa áttað sig á hversu alvarlegt málið var. „Ég sagði við sjálfa mig að jafnvel þótt að ég hefði farið yfir landamærin þá myndu þeir bara sekta mig og segja mér að fara aftur til Kanada.“

Í tvær vikur í haldi

Roman var ekki með  nein skilríki á sér sem flækti málin verulega. Hún var flutt í fangabúðir fyrir ólöglega innflytjendur í Tacoma en búðirnar eru reknar af innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna. Var hún sett inn í bíl og færð í búðirnar. „Þeir sögðu mér að afhenta alla persónulega muni og skartgripi mína og svo leituðu þeir alls staðar á mér. Þá áttaði ég mig á því að þetta var alvarlegt og ég fór að gráta.“

Er hún kom í búðirnar hafði hún samband við móður sína sem kom fljótt á vettvang með vegabréf hennar og dvalarleyfi sem hún hafði í Kanada vegna náms. En starfsmenn búðanna sögðu þetta ekki duga og þurfa staðfestingu kanadískra yfirvalda. 

Roman var því haldið í búðunum í tvær vikur áður en málið leystist og henni var heimilt að fara aftur til Kanada. 

Móðir hennar segir landamærin gildru, hver sem er geti verið handtekinn við að fara óvart yfir þau.

Útlendingastofnun Bandaríkjanna staðfesti við CBC að Roman hefði verið sleppt í byrjun júní en vildi ekki tjá sig frekar um  málið. Talsmaður landamærastofnunar landsins segir að hver sá sem kemur inn í Bandaríkin án þess að fara í gegnum viðurkennda staði verði handtekinn. Þá skipti engu hvort hann haldi því fram að það hafi verið óvart.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert