Ákærum hætt tímabundið

AFP

Hætt er að ákæra foreldra sem eru með börn með sér þegar þeir koma með ólöglegum hætti til Bandaríkjanna segir yfirmaður landamæraeftirlits Bandaríkjanna (Customs and Border Protection, CBP), Kevin McAleenan, en um tímabundna ákvörðun er að ræða. 

Þetta kom fram á fundi McAleenan með fréttamönnum í Texas í gærkvöldi. Hann segir að þetta sé í takt við fyrirskipun Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, sem undirritaði tilskipun um að hætta eigi að aðskilja fjölskyldur. En Trump lagði til að þess í stað yrðu börn sett í varðhald með foreldrum sínum. 

 McAleenan ítrekar að ekki hafi verið vikið frá stefnu bandarískra stjórnvalda um ekkert umburðarlyndi þegar kæmi að innflytjendum sem ekki væru með leyfi til þess að koma til landsins.

Að sögn yfirmanns CBP er ekki hægt að ákæra foreldra ef ekki stæði til að aðskilja þá frá börnum sínum þar sem ólöglegt væri að setja börn í varðhald sem ætlað er fullorðnum. Hann segir að CBP ásamt dómsmálaráðuneytinu verði að finna út hvernig hægt er að ákæra foreldra án þess að aðskilja þá frá börnum sínum. 

McAleenan segir að landamæraverðir muni áfram ákæra flóttafólk sem er eitt á ferð og reynir að komast yfir landamæri Bandaríkjanna á ólöglegan hátt. Jafnframt verði börn tekin frá foreldrum sínum ef í ljós kemur að foreldrið er á sakaskrá eða barnið í hættu. 

Talskona Hvíta hússins, Sarah Sanders, segir að engin breyting hafi orðið á stefnu stjórnvalda í að ekkert umburðarlyndi sé í gangi komi fólk með ólöglegum hætti til Bandaríkjanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert