Reyndi að kyssa fréttamann

AFP

Brasilískur íþróttafréttamaður varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu á sunnudag að þegar hann var í beinni útsendingu frá HM í knattspyrnu þá reyndi maður að kyssa hann. 

Julia Guimarães var í beinni útsendingu í Jekaterinborg á sunnudag þar sem Japan mætti Senegal þegar karlmaður kom að henni og reyndi að kyssa hana þegar hún var í beinni útsendingu. Henni tókst að víkja sér undan og sagði honum að þetta væri ólíðandi framkoma í garð konu.

Í síðustu viku varð kólumbísk fréttakona fyrir því að karlmaður káfaði á  henni þegar sem hún var í beinni útsendingu frá keppninni.

„Hættu þessu! Aldrei gera nokkuð þessu líkt aftur,“ sagði Guimarães  við manninn og heyra má hann biðja afsökunar í útsendingunni. „Svona gerir maður ekki við konur, allt í lagi? Sýndu virðingu.“

Fréttakonan, sem starfar fyrir TV Globo og SportTV skrifar á Twitter að hún hafi aldrei þurft að upplifa nokkuð þessu líkt í heimalandinu, Brasilíu, en í tvígang frá því hún kom til Rússlands að fjalla um keppnina. 

Hún segir í viðtali við Globo Esporte að í þetta skiptið hafi hún brugðist við því henni hafi verið nóg boðið. Það sé eiginlega óskiljanlegt að fólk telji í lagi að hegða sér með þessum hætti. 

Að hennar sögn varð hún einnig fyrir áreitni á fyrsta leik mótsins þegar Rússar mættu Sádi-Arabíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert