Svíar banna betlidólga

Frá Stórtorginu í miðborg Stokkhólms.
Frá Stórtorginu í miðborg Stokkhólms. AFP

Ný lög taka gildi í Svíþjóð í dag sem ætlað er að taka á betlidólgum, fólki sem misnotar aðra til að betla fyrir sig.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að fátækt fólk og utangarðsmenn séu á hverju ári lokkuð til Svíþjóðar með loforði um starf og tækifæri en séu þess í stað þvinguð til að starfa við betl í aðstæðum sem líkja megi við þrælahald. Dæmi eru um að betlarar séu þvingaðir til að greiða öðrum fyrir að fá að betla á ákveðnum svæðum eða þvingaðir til athæfisins.

Nýjum lið er bætt við hegningarlög, sem nefnist misnotkun manneskju. Að sögn Morgan Johansson dómsmálaráðherra tekur lagasetningin fyrir tvenns konar misnotkun.

Annars vegar tilfelli þar sem einhver græðir á annars manns betli og hins vegar þegar fólk er látið starfa við óboðlegar aðstæður. 

„Við höfum ástand sem var ekki til staðar fyrir fimm eða tíu árum. Það eru margir sem halda til í Svíþjóð og enda í þessu umhverfi. Það er ástæða fyrir þessari lagasetningu,“ segir Johansson.

Refsing fyri brotið getur numið fangelsisvist allt að fjórum árum, en tíu árum fyrir grófa misnotkun.

Frétt SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert