Myrti soninn vegna elliheimilisdeilna

AFP

Bandarísk kona hefur verið handtekin fyrir að skjóta son sinn til bana. Konan er 92 ára gömul og mun hún hafa myrt son sinn vegna þess að hann ætlaði að senda hana á elliheimili. Anna Mae Blessing var búsett hjá syni sínum, sem var 72 ára gamall, og kærustu hans.

Blessing er ákærð fyrir morð og samkvæmt fréttastofu BBC mun hún hafa sagt „Þú tókst mitt líf, svo nú tek ég þitt,“ þegar henni var fylgt út af heimili sínu af lögreglu í Arizona. Hún greindi lögreglu frá því að hún hefði ætlað að taka sitt eigið líf í leiðinni.

Atvikið átti sér stað að morgni mánudags, 2. júlí, í bænum Fountain Hills í Manitoba-sýslu. Blessing hafði komið tveimur byssum fyrir í vösum sínum áður en hún fór inn í svefnherbergi sonar síns. Þau rifust og dró Blessing þá upp byssu sem hún hafði keypt á áttunda áratugnum og skaut son sinn. Hann fannst látinn með tvö skotsár, á hálsi og kjálka.

Þá beindi Blessing byssunni að 57 ára gamalli kærustu sonarins, en hún náði skotvopninu af henni og henti henni út í horn herbergisins. Þá tók Blessing hina byssuna úr vasanum, sem  eiginmaður hennar, sem er látinn, hafði gefið henni á áttunda áratugnum. Kærastan náði þeirri byssu einnig úr höndum hennar áður en hún flúði og hringdi á lögregluna.

Lögreglan kom að Blessing í hægindastól í svefnherbergi hennar. Hún sagði við þá að hún ætti skilið að verða „svæfð“ fyrir gjörðir sínar. Hún hefur verið ákærð fyrir morð, alvarlega árás og mannrán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert