ESB-þingið hafnar umdeildu netfrumvarpi

Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, á þingfundi í Strassburg. Í …
Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, á þingfundi í Strassburg. Í bakgrunn er Michel Barnier, aðalsamningamaður sambandsins í útgönguviðræðunum við Breta. AFP

Evrópuþingið hafnaði í dag umdeildu frumvarpi um breytingar á höfundarréttarlöggjöf í núverandi mynd og ákvað að fresta málinu fram í september.

Lögin hefðu sett ríkari kröfur á vefsíður um að sporna við því að höfundarréttarvarið efni væri að finna á síðum þeirra, jafnvel þótt um væri að ræða miðla þar sem hver sem er getur hlaðið upp efni.

Þungavigtarmenn í netheimum, svo sem Tim Berners-Lee, faðir internetsins, og Jimmy Wales, stofnandi frjálsu alfræðiorðabókarinnar Wikipedia, höfðu lýst yfir áhyggjum sínum af lagasetningunni og sagt hana ógna frelsi internetsins. Vefsíðum Wikipedia í þremur Evrópulöndum, Spáni, Ítalíu og Póllandi, lá niðri í gær í mótmælaskyni til að vekja athygli á frumvarpinu.

Andstæðingar lagasetningarinnar hafa fagnað ákvörðuninni. Julia Reda, Evrópuþingmaður Pírata frá Þýskalandi, sem barðist gegn lagasetningunni þakkaði mótmælendum vel unnin störf í færslu á Twitter, en minnti á að verkinu sé ekki lokið. Frumvarpið fer nú í frekari vinnu innan þingsins en kosið verður um það endanlega í september.

278 Evrópuþingmenn kusu með tillögunni en 318 gegn henni. Margir þingflokkar voru klofnir í málinu, þar á meðal EPP, bandalag hægri manna, og S&D, bandalag jafnaðarmanna, tveir stærstu flokkarnir á þinginu. Bróðurpartur EPP-liða kaus með tilögunni en jafnaðarmenn voru svo að segja klofnir í tvennt.

Þingmenn Pírata lögðust gegn tillögunni, sem og nær allir græningjar og meirihluti þingmanna ALDE, bandalags frjálslyndra, og Norrænna vinstri grænna GUE-NGL, en sá flokkur er ólíkur græningjum að því leyti að þeir vilja endurskipuleggja Evrópusambandið og hverfa frá því sem þeir kalla „nýfrjálshyggjupeningastefnu“ sambandsins.

Julia Reda, þingmaður Pírata, hefur barist ötullega gegn frumvarpinu.
Julia Reda, þingmaður Pírata, hefur barist ötullega gegn frumvarpinu. Ljósmynd/Julia Reda

Hlekkjaskattur og vélmennavöktun

Frumvarpið er umfangsmikið. Það bygg­ir á stefnu ESB um sta­f­ræn­an innri markað sam­bands­ins var samþykkt í lög­fræðinefnd Evr­ópuþings­ins en þar er meðal ann­ars er stefnt að því að „minnka mis­mun á höf­und­ar­rétt­ar­lög­gjöf milli aðild­ar­ríkja“. Auk þess eru í frum­varp­inu um­bæt­ur í átt að því að leyfa notk­un höf­und­ar­rétt­ar­var­ins efn­is þvert á landa­mæri ESB-ríkja og fleira sem litlar deilur eru um innan þingsins.

Það eru einkum tvær greinar frumvarpsins sem valda deilum, númer ellefu og þrettán. Ell­eftu grein frum­varps­ins var ætlað að út­víkka lag­aramm­ann sem vernd­ar hug­verk fyr­ir fréttamiðlum. Ef af laga­setn­ing­unni hefði orðið hefði þurft leyfi fyr­ir notk­un smá­mynd­ar eða texta­búts með fyr­ir­sögn. Laga­setn­ing­unni var beint að Google og Face­book, sem fá til sín mikla net­umferð með hlekkj­um á frétt­ir annarra án end­ur­gjalds, en hefði haft áhrif á mun fleiri: sam­fé­lags­miðla á borð við Reddit, blogg­ara, frétta­veit­ur o.fl.

Gagnrýnendur þessarar tillögu, svo sem Evrópuþingmenn Pírata, uppnefndu hana Hlekkjaskattinn, Link Tax.

Þrett­ánda grein frum­varps­ins set­ur aukn­ar skyld­ur á herðar vefsíðna sem búa yfir „miklu magni“ efn­is sem hlaðið er upp af not­end­um. Skulu þær nota tækn­ina til þess að koma í veg fyr­ir höf­und­ar­rétt­ar­brot. Þessi grein hefði einkum áhrif á sam­fé­lags­miðla, en miðað við um­fang þess efn­is sem hlaðið er á miðlana er ljóst að slíkri laga­setn­ingu yrði aldrei fram­fylgt nema með sjálf­virk­um síum sem myndu leita uppi höf­und­ar­rétt­ar­varið efni, nokkurs konar vélmennavöktun.

Tillagan er þó ekki munaðarlaus. Hún nýtur meðal annars stuðnings Bítilsins Paul McCartney. Í bréfi sem hann skrifaði Evrópuþingmönnum segir

„Í dag eru margar síður sem leyfa notendum að hlaða upp efni en neita að borga listamönnum og tónskáldum sanngjarnt gjald fyrir vinnu þeirra, sem þeir misnota sjálfum sér til gróða,“ segir í bréfinu.

„Höfundarréttarfrumvarpið og þrettánda greinin myndi taka á þessu og tryggja sjálfært umhverfi tónlistar fyrir tónlistarmenn, aðdáendur og streymisveitur.“

Þá birti Axel Voss, þingmaður hægribandalagsins EPP, og flutningmaður tillögunnar myndband á heimasíðu Evrópuþingsins þar sem hann færir rök fyrir lagasetningunni og hrekur það sem hann kallar „falsfréttir“ um málið.

Paul McCartney ásamt Nancy Shevell, konu sinni.
Paul McCartney ásamt Nancy Shevell, konu sinni. AFP



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert