Hægri öfgamaður stöðvaður í Leifsstöð

Richard Spencer.
Richard Spencer. AFP

Hvíti þjóðernissinninn Richard Spencer segist hafa verið stöðvaður á Keflavíkurflugvelli á þriðjudag á leið sinni frá Bandaríkjunum til Svíþjóðar. Þar átti hann að halda ræðu á ráðstefnu en var þess í stað snúið aftur til Bandaríkjanna.

Spencer segir í samtali við AP-fréttastofuna að honum hafi verið haldið á flugvellinum í um þrjár klukkustundir áður en flogið var með hann aftur vestur yfir haf. Hann segir íslenska landamæraverði hafa sagst vera að fylgja fyrirmælum frá pólskum yfirvöldum.

Greint var frá því í pólskum fjölmiðlum í nóvember að þarlend yfirvöld hefðu bannað Spencer að koma inn á Schengen-svæðið næstu fimm árin. 

„Þetta er fáránlegt. Það er ekki eins og ég ætli að fremja einhvern glæp,“ sagði Spencer við AP. Talsmaður pólsku lögreglunnar hafði ekki heyrt af málinu.

Spencer er upp­hafsmaður hug­taks­ins alt-right (hitt hægrið), sem marg­ir þjóðernisöfga­menn kalla sjálfa sig. Spencer hef­ur kallað eft­ir „friðsöm­um þjóðern­is­hreins­un­um“ og ít­rekað not­ast við til­vitn­an­ir og stef úr ræðum nas­ista.

Hann var skipu­leggj­andi mót­mæl­anna í Char­lottesville síðasta haust þegar því var mót­mælt að stytta af Robert E. Lee, hers­höfðingja Suður­ríkj­anna í þræla­stríðinu, yrði fjar­lægð. Mót­mæl­in kostuðu eina konu lífið og í það minnsta 19 slösuðust. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert