Nauðgaði og myrti Aleshu MacPhail

Alesha MacPhail.
Alesha MacPhail. Af Facebook.

Sextán ára gamall piltur hefur verið ákærður fyrir að hafa nauðgað og myrt Aleshu MacPhail á skosku eyjunni Bute aðfaranótt mánudags. Lík hennar fannst á mánudagsmorgun, aðeins tveimur og hálfri klukkustund eftir að amma hennar tilkynnti hvarf hennar. Alesha MacPhail var sex ára gömul og var í heimsókn með föður sínum hjá ömmu og afa í sumarleyfinu. 

Ákæran var birt í dag en pilturinn, sem fjölskylda litlu stúlkunnar þekkir vel, var leiddur fyrir dómara í gær og honum lesin ákæran. Honum er gert að sæta gæsluvarðhaldi þangað til mál hans verður tekið næst fyrir hjá dómara í lok júlí. 

Réttarmeinarannsókn sýnir að Aleshu hafði verið nauðgað áður en hún var myrt, samkvæmt fréttum breskra fjölmiðla í dag.

Yfirmaður lögreglurannsóknarinnar, Stuart Houston, segir að fjölskylda Aleshu hafi sýnt ótrúlegt hugrekki og þrek við þessar ólýsanlegu aðstæður. Hann þakkar íbúum á Bute fyrir aðstoð sem þeir hafa veitt við rannsóknina.

Vegfarandi fann lík Aleshu í skóglendi skammt frá Kames Hydro-hótelinu um níuleytið á mánudagsmorgun. Alesha hafði aðeins dvalið á eyjunni í nokkra daga eftir að skóla lauk en hún kom þangað á hverju sumri og eyddi hluta sumarsins þar með fjölskyldu sinni.

Independent

Express

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert