Kafararnir komnir úr hellinum

Drengirnir tólf og fótboltaþjálfarinn eru komnir á sjúkrahús.
Drengirnir tólf og fótboltaþjálfarinn eru komnir á sjúkrahús. AFP

Fjórir kafarar, þar á meðal einn læknir, eru nú komnir út úr hellinum á Taílandi. Þar með eru allir sem þar voru inni komnir út. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem stjórnandi björgunaraðgerðinnar, Narongsak Osotthanakorn, hélt í dag. 

Fyrr í dag tókst að koma út öllu fótboltaliðinu sem innlyksa hefur verið í hellinum frá 23. júní. Í þeim hópi voru tólf drengir á aldrinum 11-17 ára og einn fótboltaþjálfari sem er 25 ára. Allir eru þeir nú komnir á sjúkrahús þar sem þeir fá aðhlynningu.

Osotthanakorn sagði á blaðamannafundinum að bráðum fengju foreldrar drengjanna að hitta þá. Þeir eru settir í einangrun því einhverjir þeirra hafa fengið sýkingu í lungu.

„Ég get nú staðfest opinberlega að öllum drengjunum hefur verið bjargað. Foreldrar þeirra ætla nú heim í sturtu og skipta um föt. Þeir ættu svo að geta heimsótt börnin sín [í gegnum gler] í kvöld.“

Með þessu á hann við að foreldrarnir verða að láta sér nægja að sinni að sjá drengina, ekki snerta þá, vegna sýkingarhættunnar. 

Heilbrigðisyfirvöld hafa staðfest að drengjunum átta sem var bjargað í gær og í fyrradag heilsast vel. Drengirnir sem bjargað hefur verið í dag eru nýkomnir á sjúkrahús þar sem ástand þeirra verður metið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert