Hellti sér yfir fundargesti

Jens Stoltenberg og Donald Trump.
Jens Stoltenberg og Donald Trump. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hóf ræðu sína á fundi Atlantshafsbandalagsins í morgun á því að ráðast harkalega á þýsk stjórnvöld. Hann sakaði ríkisstjórnina um að vera í fjötrum Rússa og krafðist þess að bandamenn Bandaríkjanna innan NATO ykju framlög sín til varnarmála.

Síðar í dag munu Trump og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hittast einslega og ræða stöðuna, samkvæmt upplýsingum frá Hvíta húsinu. Merkel var ekki viðstödd fundinn í morgun en haft er eftir henni að hún eigi von á þrætum á fundinum. Varnarmálaráðherra Þýskalands, Ursula von der Leyen, mótmælti orðum Trump og sagði þau ekki rétt. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er meðal fundarmanna í Brussel.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er meðal fundarmanna í Brussel. AFP

Fundur NATO er haldinn í Brussel og meðal geta á fundinum eru Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.

Talið er að um átakafund verði að ræða og sennilega þann erfiðasta í nokkur ár. Einkum og sér í lagi vegna tollastríðs milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna og kröfu Trump um að bandalagsríkin endurgreiði Bandaríkjunum kostnað sem fylgi því að verja álfuna.

Angela Merkel kanslari Þýskalands er ekki komin til Brussel en …
Angela Merkel kanslari Þýskalands er ekki komin til Brussel en kemur síðar í dag. Hún var því ekki viðstödd ræðu Trumps. AFP

Flestir voru viðbúnir því að Trump myndi hella úr skálum reiði sinnar á fundinum en hversu harkalegur hann var á fundinum, sem átti að vera spjallfundur yfir morgunverðinum, kom flestum á óvart. Þar á meðal framkvæmdastjóra NATO, Jens Stoltenberg. 

„Þýskaland er í fjötrum Rússa þar sem landið fær svo mikið af orku sinni frá Rússlandi,“ sagði Trump og vísaði þar til Nord Stream II gasleiðslunnar sem hann hefur áður gagnrýnt.

„Allir eru að tala um þetta alls staðar í heimum. Þeir segja að við erum að greiða ykkur milljarða dollara til að vernda ykkur en þið greiðið Rússum milljarða dollara,“ bætti Trump við.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. AFP

Trump hefur lengi kvartað undan því að NATO-ríkin í Evrópu greiddu ekki nægjanlega mikið fyrir varnir sínar og sakar þær um að vera sníkjudýr á Bandaríkjunum. Í ræðunni í dag beindi hann orðum sínum hins vegar sérstaklega að Þjóðverjum.

Á leiðtogafundi NATO í Walses 2014 var samþykkt að hækka hlutfall ríkisútgjalda ríkjanna til varnarmála. Er miðað við 2% af vergri landsframleiðslu. En Þýskaland, sem er stærsta hagkerfi Evrópu, ver 1,24% af landsframleiðslu til varnarmála á meðan Bandaríkin setja 3,5% af landsframleiðslu til varnarmála.

Justin Trudeau, forsætisráðherra og Harjit Singh Sajjan varnarmálaráðherra Kanada.
Justin Trudeau, forsætisráðherra og Harjit Singh Sajjan varnarmálaráðherra Kanada. AFP

„Þessi ríki verða að bæta í og það ekki á tíu árum, heldur strax,“ sagði Trump á fundinum í morgun. „Við verndum Þýskaland, Frakkland og alla... svona hefur þetta verið í áratugi,“ bætti hann við. Hann segir að þetta geti ekki gengið lengur og þessu verði að breyta.

Stoltenberg staðfestir að Trump hafi verið afar afdráttarlaus í tali en segir að bandalagsríkin séu að mestu samstíga, að berjast gegn hryðjuverkum,  dreifa kostnaði af varnarmálum jafnar og styrkja NATO.

Forsætisráðherra Kanada, JustinTrudeau, segir að áherslan eigi fremur að vera á afköst en hversu miklu er eytt en Kanada er eitt þeirra ríkja sem eyðir minna en 2% af landsframleiðslu í varnarmál. „Þú getur reynt að vera baunateljari og farið nákvæmlega ofan í saumana á hvað fer í hvað en lykilspurningin er - er það sem þú ert að gera að skila markvissum árangri?“

Talið er að árás Trump geti gert embættismönnum erfiðara um vik að breiða yfir ósætti og erfiðleika innan bandalagsins vegna ógnarinnar sem stafar af Rússum. En Trumps sagði í gær að hann teldi að fundurinn sem hann á með Vladimír Pútín, forseta Rússlands, á mánudag verði sá auðveldasti í Evrópureisunni. En auk þess að hitta Pútín í Helsinki ætlar Trump til Bretlands og funda með Theresu May forsætisráðherra.

Bætt við klukkan 11:45

Merkel hefur nú svarað Trump og sparar heldur ekki stóru orðin. Hún segir að Þjóðverjar taki sjálfstæðar ákvarðanir og vísar þar til ummæla Trump um fjötra Rússa. Hún er nýkomin til fundarins í Brussel en hún stýrði ríkisstjórnarfundi í Berlín á meðan Trump hellti sér yfir Þjóðverja.

„Ég hef sjálfs upplifað tíma þegar hluti Þýskalands var hertekinn af Sovétríkjunum,“ segir Merkel en hún er alin upp í Austur-Þýskalandi sem á þeim tíma var undir yfirráðum Sovétríkjanna. 

„Ég er mjög fegin því að við erum sameinuð í frelsinu sem sambandsríki Þýskalands og að við getum þess vegna tekið okkar sjálfstæðu ákvarðanir og markað sjálfstæða stefnu.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert