Þýsk yfirvöld gruna Opel um græsku

Þýsk yfirvöld eru að rannsaka díselbíla frá Opel, vegna gruns …
Þýsk yfirvöld eru að rannsaka díselbíla frá Opel, vegna gruns um að þeir mengi meira en þeir mega. AFP

Þýsk yfirvöld eru að rannsaka bílaframleiðandann Opel, en rannsóknin er tengd díselhneykslinu, útblásturs-skandalnum sem leiddi til þess að Volkswagen og fleiri bílaframleiðendur þurftu að greiða milljarða evra í skaðabætur fyrir að hafa blekkt neytendur og yfirvöld með því að láta líta út fyrir að díselbílar menguðu minna en þeir í raun gerðu.

Talsmaður samgönguráðuneytis Þýskalands staðfesti við AFP-fréttaveituna að ráðuneytið væri að skoða díselbíla frá Opel sérstaklega, en að engar niðurstöður lægju enn fyrir.

Þýska blaðið Bild greinir frá því að verið sé að skoða bíltegundirnar Cascada, Insignia og Zarifa. Samkvæmt umfjöllun blaðsins hafa þýsk yfirvöld sönnunargögn fyrir því að útblásturskerfi bílanna virki ekki eins og þeim er ætlað og að útblástur bílanna sé jafnvel tíu sinnum meiri en bílaframleiðandinn hefur haldið fram.

Opel sagði eftir að díselhneykslið komst í hámæli árið 2016 að fyrirtækið færi að lögum og reglum og að bílaframleiðandinn hefði aldrei sett búnað í bíla sína til að láta þá líta út fyrir að menga minna en þeir gera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert