Kæri kynferðisofbeldi vegna HM

Marki fagnað í París í úrslitaleik Frakka og Króata á …
Marki fagnað í París í úrslitaleik Frakka og Króata á HM. Frásagnir af kynferðisofbeldi og áreitni í kjölfar fagnaðarlátanna birtast nú á samfélagsmiðlum. AFP

Lögreglustjóri Parísar hvatti í dag þær konur sem urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi eða áreitni í kjölfar fagnaðarlátanna sem brutust út er Frakkar unnu heimsmeistarakeppnina í fótbolta að leggja fram kærur. Tugir frásagna af kynferðisofbeldi hafa verið birtar á samfélagsmiðlum undanfarna daga.

„Við verðum að fá upplýsingar um þessi mál svo við getum rannsakað þau,“ sagði lögreglustjórinn Michel Delpuech í viðtali við útvarpsstöðina Europe 1 radio. „Við munum að sjálfsögðu leita uppi árásarmennina ef kennsl eru borin á þá.“

Fréttir af kossum án samþykkis, káfi og þukli bárust eftir að hundruð þúsunda aðdáenda franska landsliðsins þustu út á götur Parísar til að fagna sigri liðsins í úrslitaleiknum gegn Króatíu á sunnudag.

Einnig hefur verið greint frá kynferðisofbeldi sem hafi átt sér stað í skrúðgöngunni sem farin var niður Champs Elysee til að fagna heimkomu liðsins á mánudag. Hafa notendur samfélagsmiðla notað myllumerkið #MeTooFoot samfara frásögnum sínum og vísa þar til mótmælanna gegn kynferðisofbeldi sem spruttu upp í kjölfar ásakana í garð kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein.

„Í mínu tilfelli, þá var það þegar þriðja markið var skorað að ég fann hönd smjúga upp pilsið mitt,“ segir Twitter-notandinn Isa á mánudag.

Aðrir greindu frá því í færslum sínum að þeir hefðu ekki lagt fram kæru, þar sem þeir teldu ólíklegt að lögregla myndi fylgja málinu eftir þar sem árásaraðilarnir voru fljótir að flýja inn í mannfjöldann.

Marlene Schiappa, jafnréttisráðherra Frakklands, hvatti fórnarlömbin til að gefa sig fram í færslu á Twitter í gær. „Maður sem neyðir kossi upp á konu í partíi vegna HM gerist sekur um kynferðisofbeldi og það er refsivert samkvæmt lögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert