Öryggisvörður Macrons réðst á mótmælanda

Alexandre Benalla (til hægri) gætir þess að stuðningsmenn Macrons komist …
Alexandre Benalla (til hægri) gætir þess að stuðningsmenn Macrons komist ekki of nærri honum á kosningafundi í mars í fyrra. AFP

Einn helsti öryggisvörður Emmanuels Macron Frakklandsforseta var myndaður að slá og stappa á mótmælanda. Myndbandið er birt á vef franska dagblaðsins Le Monde. 

Á myndbandinu má sjá öryggisvörðinn Alexandre Benalla, með lögregluhjálm á höfði, slá og stappa svo á ungum manni í mótmælum sem voru í miðborg Parísar 1. maí síðastliðinn.

Benalla, sem er ekki lögreglumaður, hafði að sögn forsetaskrifstofunnar fengið leyfi til að fylgjast með lögregluaðgerðum í vaktafríi sínu á degi verkalýðsins. 

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Macrons var Benalla vikið frá störfum í tvær vikur eftir að upp komst um árásina. Hann hefur nú verið færður til í starfi en hann sá m.a. um að skipuleggja öryggisgæslu í kringum forsetann á ferðalögum hans. Talsmaður forsetans segir hegðun Benalla hafa verið ólíðandi.

Saksóknarar lögreglunnar hafa nú hafið rannsókn á málinu og gæti Benalla sætt ákæru fyrir brot í opinberu starfi og fyrir að þykjast vera lögreglumaður. 

Benalla stóð þétt við hlið Macrons í allri hans kosningabaráttu. Hann gekk svo til liðs við starfsmenn forsetans er Macron var kjörinn.

Stjórnarandstæðingar spyrja hvers vegna málinu hafi ekki verið vísað til lögreglu um leið og það kom upp. Að gera það ekki sé merki um tilraunir til þöggunar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert