Segja Judd hafa gert kynferðislegan „samning“

Leikkonan Ashley Judd hefur höfðað mál á hendur Harvey Weinstein.
Leikkonan Ashley Judd hefur höfðað mál á hendur Harvey Weinstein. AFP

Lögmenn Harveys Weinstein fara fram á það að dómari vísi málsókn leikkonunnar Ashley Judd frá þar sem hún hafi gert kynferðislegan „samning“ við hinn forsmáða kvikmyndaframleiðanda. Judd höfðaði mál á hendur honum og sakar hann um að hafa reynt að eyðileggja feril hennar.

Judd, sem er fimmtug, segir að Weinstein hafi viljandi reynt að eyðileggja feril hennar með því að sannfæra Peter Jackson, leikstjóra Hringadróttinssögu, um að neita að láta hana fá hlutverk í myndunum. Segir Judd framleiðandann hafa gert þetta þar sem hún hafi neitað að eiga í kynferðissambandi við hann.

Tugir kvenna hafa sakað Weinstein um að hafa beitt þær kynferðislegu ofbeldi og áreiti. 

Samningur um snertingu

Verjendateymi Weinstein segir nú að Judd hafi gert „samning“ við hann sem leyfði honum að snerta hana ef hún „ynni Óskarsverðlaun fyrir leik í einni af myndum hans“, eins og það er orðað í gögnum sem verjendurnir hafa skilað til dómstólsins í Los Angeles sem fjallar um málið. Þeir segja að Weinstein hafi svo reynt að standa við sinn hluta af samningnum með því að reyna að útvega Judd eins mörg hlutverk og hann gat, m.a. á móti Matt Damon í kvikmyndinni Good Will Hunting. Judd fékk ekki hlutverkið heldur Minnie Driver sem uppskar Óskarstilefningu fyrir það. 

Verjendurnir segja að gjörðir hans sýni vilja hans til að ýta undir feril hennar en ekki eyðileggja hann. 

Talsmaður Judd segir þetta ekki eiga við rök að styðjast og sé auk þess móðgun við leikkonuna. 

Sagði Judd „martröð“

Judd segir, máli sínu til stuðnings, að Weinstein hafi sagt leikstjóranum Jackson að hann hefði slæma reynslu af henni og að það væri „martröð“ að vinna með henni. Jackson hefur staðfest að Weinstein hafi ráðlagt sér að ráða Judd ekki í hlutverk í Hringadróttinssögu. Það sama hafi hann gert hvað varðar leikkonuna Miru Sorvino.

„Ég man að Miramax [framleiðslufyrirtæki Weinsteins] sagði okkur að þær væru martröð að vinna með og að við ættum að reyna að forðast þær hvað sem það kostaði. Þetta var líklega árið 1998,“ segir Jackson. „Á þessum tíma höfðum við enga ástæðu til að efast um orð þessa manns en þegar ég hugsa til baka þá finnst mér líklegt að þarna hafi rógburðsherferð Miramax verið á fullri ferð.“

Weinstein, sem er 66 ára, hefur verið ákærður fyrir nauðgun gegn þremur konum. Þá vinna saksóknarar í New York að undirbúningi ákæru á hendur honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert