Telja sig hafa fundið árásarmennina

Lögreglumenn að störfum í nágrenni Salisbury eftir að par sem …
Lögreglumenn að störfum í nágrenni Salisbury eftir að par sem komst í snertingu við eitrið veiktist alvarlega. AFP

Breska lögreglan telur sig hafa fundið þá sem grunaðir eru um að hafa framkvæmt eiturefnaárásina á Skripal-feðginin í Salisbury í byrjun marsmánaðar. Feðginin Sergei og Julia Skripal fundust meðvitundarlaus á bekk í borginni og í ljós kom að þau höfðu komist í snertingu við eitrið novichok sem framleitt var í Sovétríkjunum á sínum tíma. 

Frá þessu greinir AP-fréttastofan.

„Rannsakendur telja sig hafa borið kennsl á hina grunuðu gerendur í novichok-árásinni með aðstoð myndefnis úr öryggismyndavélum og hafa borið þær upplýsingar saman við lista yfir fólk sem kom inn í landið um svipað leyti,“ hefur AP eftir heimildarmanni sínum. „Þeir eru sannfærðir um að [hinir grunuðu] séu Rússar.“

Breska lögreglan neitaði að tjá sig um málið er AFP-fréttastofan leitaði eftir því.

Skripal-feðginin voru lögð inn á sjúkrahús en þaðan hafa þau nú verið útskrifuð. Bresk stjórnvöld sökuðu þau rússnesku um að standa að baki árásinni á feðginin en því var harðlega neitað.

Í júní veiktist breskt par vegna sama eiturs. Bjó það í nágrenni Salisbury. Talið er að parið hafi fundið ilmvatnsflösku í ruslatunnu og þannig komist í snertingu við eitrið. Dawn Sturgess, 44 ára, lést síðar af völdum eitrunarinnar. Kærasti hennar, Charlie Rowley, liggur enn á sjúkrahúsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert