Aðskilin frá syni sínum í 45 daga

Verðir í búðum þar sem börn eru vistuð í Tornillo …
Verðir í búðum þar sem börn eru vistuð í Tornillo í Texas standa hér innan girðingar. Fyrir utan eru skór og aðrar eigur barna sem skiln hafa verið eftir. AFP

Martröðin hófst þegar Otilia Asig-Putul kom með 11 ára gömlum syni sínum Geremy og frænda hans yfir landamærin til Bandaríkjanna. Rödd hennar brestur er hún rifjar upp dagana 45 sem hún var aðskilin frá syni sínum í nafni svo nefndrar „zero tolerance“ stefnu Bandaríkjastjórnar. Samkvæmt stefnunni eru allir sem koma án leyfis yfir landamærin frá Mexíkó settir í varðhald. Nú í vor og framan af sumri voru þúsundir barna skilin frá foreldrum sínum og vistuð í barnabúðum nafni stefnunnar.

Otilia og Geremy höfðu nýlokið erfiðri ferð frá Gvatemala, þar sem hún skildi eftir þrjú önnur börn sín. 10 ára og fjögurra ára drengi og sex ára stúlku. Otilia var skilinn við mann sinn, sem hafði hætt að greiða fjölskyldunni meðlag og hún ákvað því að flytjast til Bandaríkjanna svo hún gæti séð börnum sínum farborða.

Hún segir þau Geremy hafa komið að landamærunum með fleiri fjölskyldum. Um leið og komið var að landamærunum gáfu þau sig fram og óskuðu eftir hæli. Það var heitt í veðri og þau voru samstundis sett inn í bíl með allar rúður lokaður. „Það var svo heitt,“ segir hún. „Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera og fór að gráta.“ Tárin áttu eftir að verða mun fleiri áður en yfir lauk.

„Mér datt ekki í hug að þetta myndi gerast,“ segir Otila sem var að læra bókhald í heimalandinu. „Ef að ég hefði vitað að þetta yrði svona, þá hefði ég ekki hætt lífi sonar míns.“

Þrír dagar á gólfinu í kæliklefanum

Eftir dvölina í sjóðheitum bílnum voru þau Otilia og Geremy flutt í fangaklefa sem hælisleitendur kalla „la hielera“ eða kæliklefann. „Þeir létu okkur vera þrjá daga á gólfinu í kuldanum, létu okkur ekki fá neitt og hæddust að okkur,“ segir hún en fangelsið er rekið af alríkisyfirvöldum.

Það er greipt í huga Geremy er móðir hans var tekin frá honum járnuð á höndum og fótum. „Mér leið illa og ég fór að gráta,“ segir hann. Ekki batnaði ástandið er einn varðmannanna sagði Otiliu að kveðja son sinn. „Hann byrjaði að gráta og við kvöddumst,“ segir hún.

Börn á leið í kaþólska miðstöð eftir að hafa verið …
Börn á leið í kaþólska miðstöð eftir að hafa verið látin laus úr varðhaldsbúðum í Texas. AFP

Otilia var því næst send í Eloy búðirnar í Arizona, en Geremey var fluttur til Chicago sem er í tæplega 3.000 km fjarlægð.

„Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera,“ segir Otilia. „Hvað myndi gerast ef ég væri send úr landi? Hver myndi vita hvar sonur minn var? Ég var mjög hrædd.“

Varð fyrir árás í búðunum

Í búðunum í Chicago, varð Geremy fyrir árás 14 ára drengs. Hann fékk höfuðmeiðsl og þurfti meðhöndlunar við á sjúkrahúsi.

Nexus, lögfræðistofa sem sérhæfir sig í mannréttindamálum, hefur tekið upp mál hans og höfðað mál gegn búðunum fyrir vanrækslu.

„Félagsráðgjafinn minn kom illa fram við mig,“ segir Geremy. „Hún vildi ekkert hafa með mig að gera.“

Með aðstoð annarra sem dvöldu í sömu búðum og hún tókst Otiliu að komast að því hvar sonur  hennar var í haldi og fékk í framhaldinu að ræða við hann í síma.

„Ég var sorgmædd, en hann var sterkur og hann hafði bara mig til að segja sér að vera hugrakkur. Þetta myndi allt bjargast.“

„Vona að þetta verði þess virði“

Otilia var látin laus  gegn 20.000 dollara tryggingu mánuði síðar, sem Nexus greiddi fyrir hana eftir að ákveða að taka að sér mál hennar án greiðslu. Fyrir vikið getur hún dvalið í Bandaríkjunum þar til hælisumsókn hennar hefur verið afgreidd.

Það var svo í lok júní sem lögfræðistofunni tókst að fá Geremy látinn lausan og nú búa mæðginin hjá frænku föður hans á Miami, en sonur hennar var frændinn sem þau komu til Bandaríkjanna með.

Þau velta nú framtíðinni fyrir sér, en þau verða ekki send úr landi nema að tilskipun innflytjendadómara. Fyrst á dagskrá hjá Otiliu er að fá sér vinnu. „Ég skildi þrjú börn eftir og ég verð að berjast fyrir þau þar til yfir lýkur. Ég vona að þetta verði þess virði eftir allt sem við höfum gengið í gegnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert