Ráðist á þriggja ára dreng með ætandi efni

Worcester er skammt sunnan Birmingham í Englandi.
Worcester er skammt sunnan Birmingham í Englandi. Kort/Google

Þriggja ára gamall drengur hlaut alvarlega bruna á hendi og á andliti, eftir að ætandi efni, mögulega sýru, var sprautað eða skvett á hann með vísvitandi hætti í matvöruverslun í Worcester í Bretlandi í gærdag.

Einn maður er í haldi lögreglunnar í West Mercia vegna málsins. Sá er 39 ára gamall og kemur frá Wolverhampton. Þriggja manna til viðbótar er leitað, þar sem þeir eru taldir geta veitt mikilvægar upplýsingar um málið.

Drengurinn var útskrifaður af spítala í dag, en óvíst er hversu mikil áhrif brunaáverkarnir munu hafa á hann til framtíðar. Hann var ásamt ungum foreldrum sínum í matvöruversluninni Home Bargains er ráðist var á hann.

Robin Walker, þingmaður borgarinnar, sagði árásina hræðilega og að viðurstyggilegt væri að ráðast gegn ungu barni með þessum hætti. Hann sagði óhugsandi að atburður sem þessi gæti átt sér stað.

„Hrein illska“

Formaður borgarráðs í Worcester, Marc Bayliss, lýsti verknaðinum sem „hreinni illsku“.

„Ég hef aldrei heyrt af sýruárás í Worcester, svo þetta er eitthvað sem við höfum aldrei upplifað,“ sagði Bayliss, sem hvetur þá sem hafa upplýsingar um málið til þess að stíga fram.

„Ímyndaðu þér að þetta væri einhver í þinni fjölskyldu, saklaust barn, þriggja ára, með ör fyrir lífstíð eftir þetta,“ sagði Bayliss, sem vill að þeir sem eru ábyrgir finnist og verði dregnir til ábyrgðar eins fljótt og auðið er.

Frétt BBC um málið

Talið er að mennirnir sem sjást á myndinni geti veitt …
Talið er að mennirnir sem sjást á myndinni geti veitt upplýsingar um árásina. Mynd/Lögreglan í West Mercia
Talið er að mennirnir sem sjást á myndinni geti veitt …
Talið er að mennirnir sem sjást á myndinni geti veitt upplýsingar um árásina. Mynd/Lögreglan í West Mercia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert