Hitabylgjan í Bretlandi að ná hámarki

Verður hitametið frá 2003 slegið í Bretlandi á morgun?
Verður hitametið frá 2003 slegið í Bretlandi á morgun? AFP

Búast má við því að hitinn nái 37°C á Bretlandseyjum á morgun. Jafnvel er talið að hitametið frá ágúst 2003, 38,5°C, verði slegið. Í dag er búist við 35°C. Heitast verður í suðausturhluta London.

Síðustu vikur hafa verið þær þurrustu að sumartíma frá upphafi mælinga, segir í frétt Sky-fréttastofunnar. Þurrkarnir hafa þegar haft mikil áhrif á allan gróður og óttast er að uppskerubrestur verði. Þá er einnig útlit fyrir að vatn verði skammtað. Bretum hefur verið ráðlagt að halda sig í skugganum í dag á meðan sólin er sem hæst á lofti.

Umhverfisnefnd breska þingsins segir í nýrri skýrslu sinni  að um árið 2050 megi búast við 7.000 dauðföllum árlega vegna hita í landinu, verði ekkert að gert. Gefa þurfi eldri borgurum, sem fari fjölgandi, sérstakan gaum í þessu sambandi.

Vísindamenn eru ekki á einu máli um hvort hitabylgjur síðustu ára megi rekja til loftslagsbreytinga en þeir eru þó sammála því að hitabylgjur verði tíðari – og heitari – í framtíðinni vegna aukinnar losunnar gróðurhúsalofttegunda. 

Í skýrslu þingnefndarinnar er fjallað um þá spá bresku veðurstofunnar að á fimmta áratug þessarar aldar gæti hiti í Bretlandi reglulega verið í kringum 38,5°C.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert