Mueller afhendir vitnalistann gegn Manafort

Réttarhöldin yfir Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Trumps, hefjast á þriðjudag.
Réttarhöldin yfir Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Trumps, hefjast á þriðjudag. AFP

Robert Mueller, sérstakur saksóknari bandarísku alríkislögreglunnar FBI í meintum afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum, lagði í gær fram lista með nöfnum 35 mögulegra vitna í málshöfðuninni gegn Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Donald Trumps Bandaríkjaforseta.

Málaferlin gegn Manafort hefjast í Virginíu á þriðjudag og á vitnalistanum eru bæði bankamenn og endurskoðendur, sem Reuters-fréttastofan segir líklega til að bera vitni um bankagreiðslur og skattsvik.

Á listanum er einnig að finna Richard Gates, samstarfsmann Manaforts til langs tíma. Hann var ákærður í október í fyrra eins og Manafort, en hefur verið samstarfsfús við rannsakendur frá því hann lýsti sig sekan í febrúar á þessu ári.

Tad Devine, ráðgjafi sem starfaði fyrir Manafort í Úkraínu og var ráðasnillingur fyrir Bernie Sanders í forkosningum demókrata fyrir forsetakosningarnar 2016, er einnig á vitnalistanum.  

Manafort hefur lýst sig saklausan af öllum 18 ákæruliðum um banka- og skattsvik. Fjölmörg vitnanna eru framkvæmdastjórar hjá bönkum sem lánuðu Manafort fé, endurskoðunarfyrirtækinu sem vann skattaskýrslu hans og aðrir sem tóku þátt í fjármálagjörningum hans.

Segir Reuters málaferlin nú tengjast ákærum sem að stærstum hluta séu til komnar vegna hluta sem gerðust áður en Manfort hóf störf fyrir framboð Trumps. Engin ákæruatriðanna tengjast heldur Rússarannsókninni eða meintu samstarfi framboðs Trumps við Rússana, en Manafort á yfir höfði sér önnur málaferli í september vegna mála því tengdu, m.a. fyrir að hafa áhrif á vitni í tengslum við starf sitt fyrir Úkraínustjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert