Trump samþykkir að aðstoða Kaliforníu

Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur samþykkt að veita Kaliforníuríki aðstoð, á sama tíma og þúsundir slökkviliðsmanna reyna í óðaönn að halda banvænum og óslökkvandi eldum í skefjum. Að minnsta kosti sex manns eru látnir og hundruð bygginga eru ónýt eftir elda undanfarinnar viku.

Tvö ung börn og sjötíu ára amma þeirra létust í Carr-eldinum svonefnda, en sá eldur hefur einnig orðið tveimur slökkviliðsmönnum að bana. Þriðji slökkviliðsmaðurinn lést í baráttu við annan eld, sem kenndur er við Ferguson.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur nú lýst yfir neyðarástandi í Kaliforníu og getur þar með sent aðstoð alríkisins til þessa fjölmennasta ríkis Bandaríkjanna.

Carr-eldurinn, sem geisar í Norður-Kaliforníu og hófst 23. júlí, hefur skilið eftir sig sviðna jörð sem þekur nærri 33 þúsund hektara við síðustu talningu, samkvæmt upplýsingum frá skóga- og eldvarnadeild ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert