3 látnir eftir skotárás í New Orleans

Þrír létust og sjö særðust í skotárás í New Orleans …
Þrír létust og sjö særðust í skotárás í New Orleans í gærkvöldi. Skjáskot/Twitter

Þrír létust og að minnsta kosti sjö til viðbótar særðust í skotárás í New Orleans í gærkvöldi. Reuters-fréttastofan hefur eftir lögregluyfirvöldum í borginni að tveir árásarmenn hafi skotið af handahófi á mannfjöldann.

Árásin átti sér stað um hálfellefuleytið að staðartíma, skammt frá Franska hverfinu.

Þrír voru úrskurðaðir látnir á vettvangi og sjö voru fluttir á sjúkrahús, ekki hefur verið gefið upp hvort meiðsl þeirra séu alvarleg.

„Það er ekkert pláss í New Orleans fyrir svona ofbeldi,“ sagði LaToya Cantrell, borgarstjóri New Orleans, á Twitter. „Ég tala fyrir alla íbúa þegar ég segi að þetta veki okkur bæði andstyggð og reiði.  Við höfum fengið meira en nóg.“

Engar upplýsingar hafa enn verið veittar um árásarmennina eða tilefni árásarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert