Ýjar að hagsmunaárekstrum Muellers

Donald Trump lét gamminn geisa á Twitter í dag.
Donald Trump lét gamminn geisa á Twitter í dag. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist hafa átt í viðbjóðslegu og þrætugjörnu viðskiptasambandi við Robert Mueller, sem skipaður hefur verið í embætti sérstaks saksóknara til að rannsaka inngrip Rússa í bandarísku forsetakosningarnar árið 2016.

Í röð tísta þar sem forsetinn beinir spjótum sínum að trúverðugleika Muellers ýjar hann að því að Mueller sé vanhæfur vegna mikilla hagsmunatengsla sem lögmanninum hafi láðst að gera grein fyrir.

Reyndi að láta reka Mueller

Dagblaðið New York Times greindi í janúar frá því að Trump hefði reynt að láta reka Mueller úr embætti í júní á síðasta ári, en hætt við eftir að sérstakur lögfræðingur Hvíta hússins, Don McGahn, hótaði að segja af sér myndi forsetinn láta verða af því.

Fullyrt var í dagblaðinu að Trump hefði vísað til þriggja mismunandi hagsmunaárekstra sem allir gerðu það að verkum að Mueller væri vanhæfur til starfans.

Í fyrsta lagi væri um að ræða ágreining um félagsgjöld í golfklúbbi sem kenndur er við Trump, í öðru lagi fyrra starf Mueller fyrir lögfræðistofu sem eitt sinn varðaði hagsmuni tengdasonar forsetans, Jareds Kushner, og í þriðja lagi starfsviðtal um embætti forstjóra alríkislögreglunnar FBI, aðeins degi áður en Mueller var skipaður í embætti sérstaks saksóknara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert