Syndir með hræ kálfsins um hafið

Háhyrningskýrin syndir með hræ kálfsins um hafið.
Háhyrningskýrin syndir með hræ kálfsins um hafið.

Háhyrningskýr hefur dögum saman synt með hræ kálfs síns um hafið undan ströndum Kanada. Hún tilheyrir fjölskyldu sem vísindamenn fylgjast vel með. Kálfurinn lifði aðeins í um hálftíma og síðan hann drapst, fyrir rúmri viku, hefur móðirin borið hann varfærnislega á bægslunum eða á höfði sínu, rétt eins og hún vilji ekki valda áverkum á hræinu. Fyrstu dagana fylgdi fjölskyldan henni eftir en nú hefur hún dregist aftur úr. Það veldur vísindamönnunum áhyggjum því háhyrningar eru mikil hópdýr. 

Fjölskyldan hefur lengi vakið athygli sjófarenda og skemmt þeim með listum sínum. En því er öðru farið í sumar. Sorgin vegna dauða kálfsins hefur breytt hegðun hennar. 

Fjölmargir fréttamiðlar fygljast vel með gangi mála og er dagblaðið Seattle Times þar í fararbroddi. Í fréttum þess hefur komið fram að kýrin J35, eða Tahlequah, bar kálfi sínum 24. júlí. Hann lifði aðeins í um hálftíma en hún vill ekki skilja við hann þrátt fyrir það. Síðan þá hefur hún ýtt hræi hans áfram um sjóinn með bægslunum eða höfðinu.

Vísindamenn við rannsóknarstofnun Hvalasafnsins í Washington og fleiri stofnanna standa að umfangsmiklu rannsóknarverkefni á háhyrningsfjölskyldunni. Háhyrningar af þessum stofni eru í útrýmingarhættu og nú hafa vísindamennirnir miklar áhyggjur af kúnni sem missti kálfinn sinn.

„Ég óttast mjög um heilsu hennar,“ segir Deborah Giles, við Háskólann í Washington. „Hún er tvítug og við þörfnumst hennar,“ segir hún og á þar við þörfina á því að fjölga í háhyrningsstofninum. Kýrin hefur lítið étið frá því að hún fékk fyrst hríðir í síðustu viku. Fyrir utan það hafa vísindamennirnir áhyggjur af andlegri heilsu hennar. 

Hræ kálfsins hefur varðveist vel, m.a. vegna þess að sjórinn á því svæði sem móðirin fer um er kaldur. Í frétt Seattle Times segir að missi hún hræið frá sér kafi hún langar leiðir eftir því. „Það sem fer alveg með mig er spurningin hvenær mun hún kafa eftir því í síðasta skipti? Og þá þarf hún að ákveða að kafa ekki og sækja það,“ segir Giles.

Giles telur mögulegt að þetta langa sorgarferli eigi rætur sínar að rekja til þess að mjög hefur fækkað í stofni háhyrninga á svæðinu. Það má meðal annars rekja til þess að laxinn sem dýrin lifa helst á er að hverfa. Fjölskyldan hefur ekki náð að koma afkvæmi á legg í þrjú ár.

Á sunnudag var Tahlequah umvafin allri fjölskyldu sinni sem telur um 75 dýr. En nú er hún farin að dragast aftur úr. 

Vísindamenn fylgja fjölskyldunni eftir á bátum. Þeir hafa líka það hlutverk nú að gæta þess að aðrir bátar komi ekki mjög nálægt dýrunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert