Njósnari starfaði óáreittur í sendiráði

Sendiráð Bandaríkjanna í Moskvu.
Sendiráð Bandaríkjanna í Moskvu. Ljósmynd/Wikipedia.org

Bandarískir gagnnjósnarar hafa komist að því að meintur rússneskur njósnari starfaði óáreittur í bandaríska sendiráðinu í Moskvu í rúman áratug.

Guardian greinir frá þessu.

Rússneska konan var ráðin af bandarísku öryggisþjónustunni, Secret Service, og er talin hafa haft aðgang að innra neti leyniþjónustunnar og tölvupóstkerfi hennar. Fyrir vikið gat hún komist yfir leynilegar upplýsingar, þar á meðal dagskrá Bandaríkjaforseta og varaforsetans.

Konan hafði starfað fyrir öryggisþjónustuna í langan tíma án þess að vekja nokkrar grunsemdir, eða þangað til 2016 þegar hefðbundin öryggiskönnun var gerð af tveimur rannsakendum.

Þeir komust að því að hún hafði átt reglulega og óleyfilega fundi með liðsmönnum FSB, rússnesku öryggislögreglunnar.

Bandaríska öryggisþjónustan sagði henni upp einhverjum mánuðum síðar. Samkvæmt heimildum var reynt að fela uppsögnina og engin innanhússrannsókn gerð til að meta tjónið af völdum hins meinta njósnara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert