Finna athvarf í mjólkurkælinum

Finnar hafa að líkindum fengið sig fullsadda af hitanum. Þessar …
Finnar hafa að líkindum fengið sig fullsadda af hitanum. Þessar virðast saddar og sælar við kælinn. AFP

Á laugardaginn brá finnska verslunarkeðjan K-ryhmä á það ráð að bjóða gestum og gangandi gistingu í búðinni. Þar hefur verið sögulega heitt undanfarið og Finnar að vonum ekki búnir undir hitann.

Hundrað manns var boðin gisting í versluninni yfir nótt. Hugmyndina fékk Marika Lindfors, framkvæmdastjóri útibús keðjunnar í vesturhluta Helsinki, þegar nokkrir viðskiptavinir í röð spurðu „í gríni“ hvort þeir mættu ekki bara gista í kælinum.

„Við reynum alltaf að koma til móts við viðskiptavini okkar,“ útskýrir Marika á Facebook-síðu verslunarinnar. Þar deildi fyrirtækið eins konar boðsmiða til viðskiptavina sinna, myndbandi sem vakti nokkra athygli og jákvæð viðbrögð.



Finnar eru eðlilega illa búnir undir hitabylgjur enda almennt kalt á þessum slóðum. Til dæmis eru fæst finnsk heimili búin loftkælingu, ekki frekar en íslensk.

Hitabylgjan sem gengur yfir Evrópu hefur sem sagt ekki skilið Finna út undan. Þar hefur verið slegið hvert hitametið á fætur öðru og var júlímánuður sá heitasti frá því 1941, með alls 27 mjög heita daga, eins og það er kallað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert