Voru á leið í skólann úr lautarferð

Jemenskt barn bíður eftir aðhlynningu á sjúkrahúsi í landinu fyrr …
Jemenskt barn bíður eftir aðhlynningu á sjúkrahúsi í landinu fyrr í dag. AFP

Árás á rútu við markað í Norður-Jemen fyrr í dag varð að minnsta kosti 29 börnum að bana. Hernaðarbandalag undir stjórn Sádi-Araba sætir nú enn frekari gagnrýni vegna árásarinnar, sem bandalagið segir þó hafa verið lögmætt svar við mannskæðri eldflaugaárás uppreisnarmanna í suðurhluta Sádi-Arabíu í gær.

Alþjóðanefnd Rauða krossins segir árásina hafa hæft rútu sem full var af börnum, við Dahyan-markaðinn í borginni Saada, þekktu vígi uppreisnarmanna úr röðum húta.

Sjónvarpsstöð húta, Al-Masirah, segir fimmtíu hafa látist í árásinni og 77 til viðbótar særst, að mestu börn. Tölurnar hafa ekki fengist staðfestar, en talsmaður Rauða krossins í Jemen tjáir fréttaveitu AFP að tala látinna sé ekki endanleg, enda hafi fjöldi særðra verið færður á mismunandi sjúkrahús.

Save the Children-góðgerðarsamtökin segja börnin hafa verið á leið aftur í skóla úr lautarferð, en numið staðar við markaðinn þar sem bílstjórinn hugðist fá sér að drekka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert