Drukknuðu á leið í skólann

Áin Níl.
Áin Níl. AFP

Að minnsta kosti 22 börn drukknuðu í Súdan þegar bátur sökk í ánni Níl fyrr í dag. Börnin voru á leið sinni í skólann þegar slysið varð.

Samkvæmt Al Jazeera fréttaveitunni lést ein kona auk barnanna þegar báturinn sökk um 750 kílómetrum norður af höfuðborginni Khartoum. Alls voru yfir 40 börn um borð í bátnum.

Slysið átti sér stað þegar vél bátarins bilaði sökum ofsafenginna rigninga og vinda. Almannavarnir á svæðinu leita enn hinna látnu.

Íbúar þorpa á svæðinu nota jafnan viðarbáta til að komast yfir Níl. Sjónarvottur sagði AFP að báturinn hafði verið að sigla á móti straumi árinnar.

Tæplega 40 manns hafa látist sökum rigninga í Súdan síðan í síðustu viku, þar af 10 í höfuðborginni samkvæmt súdönskum fjölmiðlum. Yfirvöld fyrirskipuðu í dag að skólum skyldi lokað í Khartoum sökum veðurofsans sem hefur nú eyðilagt hundruð heimila víða um mið-Súdan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert