Beittu rafbyssu gegn 87 ára konu

Martha al Bishara með barnabarni sínu Martha Douhne, sem segir …
Martha al Bishara með barnabarni sínu Martha Douhne, sem segir ömmu sína ekki þora út úr húsi eftir atvikið. Skjáskot/Sky

Lögreglumenn í Georgíu í Bandaríkjunum beittu rafbyssu gegn 87 ára gamalli konu sem var að tína túnfífla. Segjast lögreglumennirnir hafa valið rafbyssuna frekar en að beita „banvænu afli“.

Það var starfsmaður í Murray County Boys & Girls Club, sem heldur uppi ungmennastarfi í Chatsworth í Gergíu, sem hafði samband við neyðarlínuna eftir að hafa séð Mörthu al Bishara nota hníf til að tína blóm á lóð klúbbsins.

Al Bishara, sem býr í nágrenninu, er sýrlensk og talar enga ensku. Túnfíflana ætlaði hún hins vegar að nota í salat sem hún var að útbúa fyrir eiginmann sinn.

Þegar lögreglumenn mættu á staðinn með skotvopn í hendi áttu þeir í erfiðleikum með að fá hana til að skilja sig. „Við byrjuðum að reyna að tala við hana og sögðum henni vitanlega að sleppa hnífnum,“ hefur Sky sjónvarpsstöðin eftir Josh Etheridge, lögreglustjóra Chatsworth.

„Við vissum ekki hvort hún skildi okkur einfaldlega ekki eða hvort hún ætti við einhvern vanda að etja.“

Lögreglumennirnir hafi lagt sínar eigin byssur á jörðina til að gera al Bishara ljóst hvað þeir vildu að hún gerði.

Segir Etheridge notkun á rafbyssunum hafa verið réttlætanlega. „87 ára kona með hníf getur alveg sært lögreglumann,“ sagði hann.

Þeir hafi notað rafbyssuna í stað þess að nota „banvænt afl“ í þessari aðstöðu.

Al Bishara var því næst handjárnuð og flutt í varðhald. Barnabarn hennar, Martha Douhne, segir ömmu sína augljóslega ekki vera ógnandi og að hún hafi átt erfitt með svefn og sé hrædd við að fara út úr húsi frá því hún fékk rafskotið. „Hún hélt að hún hefði verið skotin,“ sagði  Douhne í samtali við NBC-sjónvarpsstöðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert