Vilja skattleggja barnfáar fjölskyldur

Í fyrra fæddust 17,23 milljónir barna í Kína, sem er …
Í fyrra fæddust 17,23 milljónir barna í Kína, sem er langt undir væntingum og spám yfirvalda. Samt hefur hugmynd hagfræðinganna fallið í grýttan jarðveg. AFP

Tveir kínverskir fræðimenn hafa viðrað umdeilda hugmynd, sem ætlað er að auka fæðingartíðni á meðal landa þeirra. Hugmyndin er nýr skattur á einstaklinga sem eiga tvö börn eða færri og er sprottin af áhyggjum af hækkandi meðalaldri kínversku þjóðarinnar.

Hagfræðingarnir Liu Zhibiao og Zhang Ye, sem báðir eru prófessorar við Nanjing-háskóla, kynntu hugmynd sína á þriðjudag í grein í ríkisrekna dagblaðinu Xinhua.

Hugmyndin hefur vakið miklar umræður á kínverskum samfélagsmiðlum og ekki hafa allir tekið jákvætt í þær. Margir eru enda brenndir af fjölskylduáætlunum Kommúnistaflokksins, sem rak í áratugi þá stefnu að Kínverjar ættu einungis að eignast eitt barn.

Þeir dagar eru liðnir og árið 2016 byrjuðu yfirvöld í Peking að leyfa þegnum sínum að eignast tvö börn, ekki síst þar sem eins barns stefnan hafði það í för með sér að kynjahlutföll voru farin að skekkjast allverulega, sökum þess að þau pör sem eignuðust drengi í fyrstu tilraun létu oftast nær staðar numið í barneignum, á meðan margir sem eignuðust stúlkur tóku á sig háar sektir yfirvalda fyrir að eignast annað barn, í þeirri von að eignast dreng.

Þetta hefur leitt af sér að margir kínverskir karlar enda sem einstæðingar, þar sem karlarnir eru einfaldlega fleiri en konurnar.

Hækkandi meðalaldur þjóðar

Það að leyfa Kínverjum að eignast tvö börn hefur ekki skilað tilætluðum árangri og fæðingartíðni ekki aukist í takt við það sem stjórnvöld höfðu séð fyrir sér. Í fyrra fæddust 17,23 milljónir barna í Kína, sem er langt undir væntingum og spám yfirvalda, sem höfðu áætlað að fæðingar í ríkinu yrðu yfir 20 milljónir.

Meðalaldur þjóðarinnar í þessu fjölmennasta ríki veraldar fer ört hækkandi og því fylgir að vinnandi höndum fækkar. Efnahagslegar afleiðingar þessa gætu orðið alvarlegar fyrir Kínverja.

Ýmsir óttast að hækkandi meðalaldur kínversku þjóðarinnar geti haft slæmar …
Ýmsir óttast að hækkandi meðalaldur kínversku þjóðarinnar geti haft slæmar afleiðingar á efnahag ríkisins. AFP

Það er af þeim ástæðum sem hagfræðiprófessorarnir viðruðu hugmynd sína, sem gengur út á að þeir sem eigi tvö börn eða færri borgi skatt í sérstakan sjóð sem barnmargar fjölskyldur fengju svo úthlutað úr, til þess að mæta tekjutapi sem konan yrði fyrir á meðan hún jafnaði sig eftir barnsburð.

Blendin viðbrögð netverja og fjölmiðla

Á samfélagsmiðlinum Weibo hafa þessar hugmyndir fallið í grýttan jarðveg og jafnvel orðið skotspónn háðfugla. AFP-fréttaveitan hefur eftir einum notanda að ef stjórnvöld vildu auka fæðingartíðni ættu þau fremur að nota tæknifrjógvanir til þess að auka fjölburafæðingar, eða leyfa fjölkvæni.

Ríkismiðillinn CCTV hefur fjallað um hugmyndir hagfræðinganna og kallað þær óskynsamlegar. „Hugmyndin er á skjön við almenna skynsemi,“ segir í umfjöllun CCTV, en þar var einnig gefið í skyn að fræðimennirnir tveir við Nanjing-háskóla væru ef til vill ekki starfi sínu vaxnir.

Það er því ef til vill ólíklegt að þessi hugmynd verði nokkurn tíma að veruleika.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert