Fengu sprengjuna frá Bandaríkjunum

Jemenskt barn borið á sjúkrahús eftir árásina 9. ágúst.
Jemenskt barn borið á sjúkrahús eftir árásina 9. ágúst. AFP

Sprengjuna, sem varð fjörutíu börnum að bana í árás hernaðarbandalags undir forystu Sádi-Arabíu á markað í Jemen í síðustu viku, fengu sádiarabísk stjórnvöld keypta með samningi við utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna.

Einkennisnúmer á þeim sprengjubrotum sem fundist hafa benda til þess að um hafi verið að ræða leysigeislastýrða sprengju af gerðinni MK-82, sem búin er til af bandaríska hergagnaframleiðandanum Lockheed Martin. Frá þessu greinir bandaríski fjölmiðillinn CNN.

Trump tók bannið úr gildi

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, lagði bann við sölu slíkra vopna til Sádi-Arabíu eftir að svipuð sprengja var notuð í árás í október 2016, sem varð 140 manns að bana í höfuðborg uppreisnarmanna, Sanaa.

Donald Trump, núverandi Bandaríkjaforseti, tók bannið hins vegar úr gildi eftir að hann tók við embætti í janúar 2017.

Að minnsta kosti ellefu til viðbótar létust í árásinni sem gerð var á fimmtudaginn í síðustu viku. Þá eru fimmtíu og sex börn á meðal þeirra 79 sem særðir eru eftir árásina.

Nærri tíu þúsund manns látið lífið

Hernaðarbandalagið hefur lofað að atvikið verði rannsakað til hlítar en sérfræðingar og hjálparsamtök hafa þegar lýst yfir vafa sínum um að bandalagið sé tilbúið að svara kröfum alþjóðasamfélagsins um gegnsæi og ábyrgð.

Vitað er að nærri tíu þúsund manns hafa látist í átökum í Jemen eftir að hernaðarbandalagið réðst inn í landið í mars árið 2015. Hafa forsvarsmenn þess beðist afsökunar á nokkrum mistökum, en enginn hefur enn verið látinn svara fyrir mannfall úr röðum almennra borgara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert