Lýsa yfir vikulangri þjóðarsorg

Kofi Annan ávarpar Sameinuðu þjóðirnar árið 1996.
Kofi Annan ávarpar Sameinuðu þjóðirnar árið 1996. AFP

Forseti Gana, Nana Akufo-Addo, hefur lýst yfir vikulangri þjóðarsorg í landinu til að minnast Kofi Annan, handhafa friðarverðlauna Nóbels og fyrrverandi aðalritara Sameinuðu þjóðanna, sem lést fyrr í dag.

Í yfirlýsingu segir forsetinn að Annan hafi verið „fullkominn“ diplómati og að Ganverjar séu harmi slegnir vegna fráfalls hans.

Annan fæddist í Kumasi, höfuðborg Ashanti-héraðsins í Gana, og varð fyrsti svarti maðurinn til að gegna embætti aðalritara Sameinuðu þjóðanna.

„Til að heiðra hann mun þjóðfána Gana vera flaggað í hálfa stöng um allt land og við allar sendiskrifstofur Gana í heiminum,“ segir Akufo-Addo og bætir við að þessi fyrirmæli sín muni gilda í viku frá og með mánudeginum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert