Brögðóttar og viðbjóðslegar nornaveiðar

Trump segir umfjöllunina vera „falsgrein“.
Trump segir umfjöllunina vera „falsgrein“. AFP

Donald Trump hefur farið mikinn á Twitter í dag sem oft áður, en hann segir rannsókn alríkislögreglunnar á afskiptum Rússa í forsetakosningunum árið 2016 vera „McCarthyisma af versta tagi“ og bendir á að hann hafi leyft lögmanni Hvíta hússins að bera vitni í rannsókninni til að binda endi á málið.

Tíststormur Trumps á upptök sín að rekja til forsíðufréttar New York Times í dag, þar sem segir að lögmaður Hvíta hússins, Don McGahn, hafi gefið settum saksóknara, Robert Mueller, óvenjulega ítarlegar upplýsingar um þankagang Trumps á þeim helstu stundum sem rannsóknin beinist að.

Trump, sem þegar hafði tjáð sig um málið seint í gærkvöldi, hefur í dag fært gagnrýni sína á hvort í senn, umfjöllunina og rannsóknina, upp á næsta stig. Gerir hann athugasemd við að New York Times hafi leitt líkur að því að McGahn hafi snúist gegn honum.

„Ég hef ekkert að fela og hef krafist gegnsæis svo að þessar brögðóttu og viðbjóðslegu nornaveiðar geti hætt. Svo mörg líf hafa verið eyðilögð vegna einskis – McCarthyismi af versta tagi!“

Hindrað Trump í því að láta reka Mueller

Mueller fer fyrir rannsókn þar sem athugað er hvort forsetinn hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar og einnig hvort framboð hans hafi lagst á ráðin með útsendurum rússneskra stjórnvalda til að hagræða forsetakosningunum vestanhafs árið 2016.

Í umfjöllun Times segir að McGahn hafi, í gegnum meira en 30 klukkustundir af vitnisburði síðustu níu mánuði, upplýst rannsakendur um reiði forsetans í þeirra garð og um leið á hvaða hátt Trump hafi beðið hann um að bregðast við rannsókninni.

Bent er á að McGahn hafi leikið lykilhlutverk í því að hindra Trump í því að láta reka Mueller úr embætti sínu, sem var skipaður sérstakur saksóknari eftir að Trump lét víkja James Comey úr starfi forstjóra alríkislögreglunnar.

Trump segir umfjöllunina vera „falsgrein“ og virðist einkum bandsjóðandi yfir að ýjað sé að því að McGahn sé „ROTTA“, eins og John Dean, fyrrverandi lögmaður Hvíta hússins sem bar vitni gegn Richard Nixon þáverandi forseta þegar Watergate-hneykslið tröllreið öllu þar vestra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert