Ræna breskar stríðsgrafir í Asíu

Prince of Wales.
Prince of Wales. Ljósmynd/Wikipedia.org

Bresk stjórnvöld hafa sagst ætla að rannsaka ásakanir um að bresk skipsflök úr síðari heimsstyrjöldinni hafi orðið fyrir barðinu á sjóræningjum, samkvæmt varnarmálaráðherranum Gavin Williamsson. Líkamsleifar mörg hundruð manna hvíla í skipunum en flökin eru viðurkenndar stríðsgrafir og því óheimilt að hrófla við þeim.

Williamsson segist vera „mjög áhyggjufullur“ að heyra fullyrðingar um að skipsflökin fjögur utan af ströndum Malasíu og Indónesíu hafi verið rænd. Samkvæmt BBC voru skipin HMS Tien Kwang, HMS Kuala, HMS Banka og SS Loch Ranza, eftirsótt út af málminum sem þau eru gerð úr.

Varnarmálaráðherrann Gavin Williamson.
Varnarmálaráðherrann Gavin Williamson. AFP

Bæði sjóliðar úr breska hernum og óbreyttir borgarar létust þegar skipin sukku.

Nokkur bresk skipsflök, þar á meðal orrustuskipið HMS Prince of Wales og orrustubeitiskipið HMS Repulse, hafa áður verið sködduð eða eyðilögð af óprúttnum aðilum árið 2014. Bæði sukku þau utan við strendur Malasíu og þar hvíla 830 breskir sjóliðar í votri gröf.

Að sögn Williamson fordæmir breska ríkisstjórnin óheimilaðar aðgerðir á skipsflökum sem innihalda mennskar leifar.

HMS Repulse sekkur eftir japanska árás.
HMS Repulse sekkur eftir japanska árás. Ljósmynd/Wikipedia.org

„Ég er mjög áhyggjufullur að heyra af ásökunum um tilvik þar sem skipsflök konunglega sjóhersins hafa verið rænd í austri,“ sagði hann. Þá sagði hann einnig að bresk yfirvöld væru að rannsaka málið með stjórnvöldum í Malasíu og Indónesíu.

Kafbátaleitarskipið HMS Tien Kwang og strandgæsluskipið HMS Kuala voru að flytja hundruð flóttamanna þegar japanskar sprengjuflugvélar réðust á þau nálægt indónesísku eyjunum Riau í febrúar 1942.

Þann sama mánuð sprakk fragtskipið SS Loch Ranza í japanskri loftárás sem olli dauða sjö manna áhafnar.

Tundurduflaslæðarinn HMS Banka sökk svo eftir að hafa siglt á tundurdufl við strendur Malasíu í desember 1941. Fjögurra manna bresk áhöfn og 34 malasískir sjómenn létust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert