Var samkynhneigður og íhugaði sjálfsvíg

Maðurinn sem lögregla í Katalóníu skaut til bana í gær, eftir að hann réðst á lögreglu vopnaður hnífi, var samkynhneigður og í sjálfsvígshugleiðingum. Þetta hafa spænskir fjölmiðlar eftir eiginkonu mannsins.

Lögregla greindi frá því á Twitter í gær að maðurinn hefði komið inn á lög­reglu­stöð í Cornella de Llobregat, sem er í nágrenni Barcelona, og ráðist þar að lög­reglu. Sögðu fjölmiðlar í kjölfarið manninn, sem var frá Alsír, hafi ákallað guð á ar­ab­ísku þegar hann rudd­ist inn. Tilkynntu yfirvöld í bænum í framhaldinu að málið yrði rannsakað sem hryðjuverk.

Að sögn konu mannsins, sem nú hefur verið nafngreindur sem Abdelouahab Taib, kom hann út úr skápnum fyrir um mánuði. Konan, sem er spænsk, hafði reynt að snúast til íslamstrúar eftir að þau kynntust, og sagði hún í yfirlýsingu sinni til katalónsku lögreglunnar að Taib hafi tilkynnt sér fyrir tveimur mánuðum síðan að hann væri samkynhneigður.

Hann hafi fundið fyrir mikilli skömm vegna þessa og fundist kynhneigð sín stangast á við trú sína, að því er dagblaðið La Vanguardia greinir frá.

Fyrir hálfum mánuði tilkynnti konan honum síðan að hún vildi skilja og sagði hún lögreglu að sig grunaði að árásin hafi verið hugsuð sem sjálfsvígstilraun af hans hálfu.

Hvorki spænska innanríkisráðuneytið né katalónska lögreglan hafa viljað tjá sig um málið.

Taib kom á lögreglustöð í Cornella de Llobregat rétt fyrir klukkan sex í gærmorgun. Stöðin var lokuð og ýtti hann ítrekað á bjölluna þar til lögregla hleypti honum inn, að því er Rafel Comes, lögregluforingi hjá katalónsku lögreglunni, greindi fjölmiðlum frá.

Er inn var komið dró maðurinn upp stóran hníf og réðst í átt að lögreglu, „greinilega með það í huga að drepa lögreglumann,“ sagði Comes í gær. Lögreglukonan sem hann réðst á hafi notað byssu sína til að bjarga eigin lífi. Maðurinn hefði enn fremur heyrst ákalla Allah og því ástæða til að rannsaka málið sem hryðjuverk.

Öryggissveitir lögreglunnar utan við íbúð mannsins sem réðst inn á …
Öryggissveitir lögreglunnar utan við íbúð mannsins sem réðst inn á lögreglustöðina í Cornella. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert