Banna kaffi í skólum

Suðurkóresk yfirvöld vilja útiloka að börn geti keypt koffíndrykki á …
Suðurkóresk yfirvöld vilja útiloka að börn geti keypt koffíndrykki á skólasvæðinu með því að banna þar kaffi. AFP

Nemendur og kennarar í Suður-Kóreu verða að finna aðra leið en kaffidrykkju til að halda sér vakandi, því stjórnvöld í landinu tilkynntu í dag að kaffisala verði bönnuð í skólum.

Sala orkudrykkja og annarra koffíndrykkja hefur verið bönnuð í skólum frá 2013, en kaffisjálfssalar hafa áfram verið á kennarastofum og kaffi fáanlegt í mötuneyti kennara. Hafa klókir nemendur notfært sér það til að komast í kringum reglurnar og fá koffínskammtinn sinn.

Núna vilja stjórnvöld hins vegar útiloka að börn geti keypt koffíndrykki á skólasvæðinu, að því er talsmaður matvæla og lyfjaráðuneytisins greinir frá. Reglurnar taka gildi 14. september, en frá og með þeim tíma verður sala koffíndrykkja bönnuð með öllu í grunnskólum, gagnfræða- og framhaldsskólum.

„Kaffi mun hverfa úr mötuneytum og sjálfssölum skóla,“ hefur AFP-fréttastofan eftir talsmanninum.

Suðurkóreska dagblaðið Chosun Ilbo segir nemendur oft leita í orkudrykki og kaffi til að halda sér vakandi yfir prófatímann. Ráðuneytið hefur hins vegar varað við heilsufarslegum áhrifum of mikillar kaffidrykkju. Það geti valdið ógleði, óreglulegum hjartslætti og svefntruflunum.

Samkvæmt upplýsingum frá KITA, alþjóðaviðskiptasambandi Kóreu, drukku Suður-Kóreubúar að meðaltali 512 kaffibolla hver á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert