Tæplega 90 fílar drepnir í Bótsvana

Fíll nýtur þess að baða sig í hitanum. Hvergi í …
Fíll nýtur þess að baða sig í hitanum. Hvergi í heiminum er meira af fílum en í Botswana og horfa veiðiþjófar nú hýrum augum til landsins. Mynd úr safni. AFP

Hræ af tæplega 90 fílum fundust í nágrenni þekkts þjóðgarðs í Bótsvana að því er BBC hefur eftir náttúruverndarsinnum.

Samtökin Fílar án landamæra, sem stóðu fyrir loftyfirliti um svæðið, segja umfang veiðiþjófnaðarins það mesta sem sést hefur í Afríku, en stutt er síðan veiðivörðum í landinu var gert að hætta að bera vopn.

Hvergi í heiminum er meira af fílum en í Bótsvana og gera veiðiþjófar nú mikið af því að laumast yfir landamærin.

Að sögn vísindamanna sem rannsökuðu hræin er stutt síðan margir fílanna 87 voru felldir og tennur þeirra teknar. Þá hafi veiðiþjófar drepið fimm hvíta nashyrninga á sl. þremur mánuðum.

„Ég er í áfalli og agndofa. Þetta umfang veiðiþjófnaðar á fílum er það langsamlega mesta sem ég hef séð eða lesið um nokkurs staðar í Afríku til þessa,“ sagði dr. Mike Chase hjá samtökunum Fílar án landamæra.

„Þegar ég ber þessar tölur og upplýsingar saman við fílaskráninguna sem ég stóð fyrir 2015 þá sjáum við nú tvöfalt fleiri dæmi um veiðiþjófnað á fílum hér en nokkurs staðar annars staðar í Afríku.“

Skráningin frá 2015 sem Chase vísaði í taldi að Afríkufílnum hefði fækkað um þriðjung síðasta áratug og að 60% allra fíla í Tansaníu hefðu drepist á fimm ára tímabili.

Bótsvana hefur hins vegar haft orð á sér sem ríki sem taki hart á veiðiþjófnaði og hafði fílum ekki fækkað jafnmikið þar og í öðrum ríkjum, jafnvel þótt lítið væri um girðingar, sem þótti benda til þess að fílarnir kysu að halda sig þar sem ástandið væri talið öruggt.

Þá var lítið um veiðiþjófnað í landinu þar sem veiðiverðir voru vel vopnaðir og gættu svæðisins vel.

Sagði Chase að augljóst væri að meira þyrfti að gera til að að stöðva veiðiþjófnað í landinu og vísaði þar m.a. til þeirrar ákvörðunar að hætta að láta veiðiverði bera vopn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert