Fagnaði forsetanum ekki nægilega

Tyler Linfesty fékk óvænt sæti á besta stað á fundi …
Tyler Linfesty fékk óvænt sæti á besta stað á fundi Donalds Trump í Montana. Í útsendingu frá fundinum var áberandi að hann virtist ekki par hrifinn af ræðuhöldunum. Skjáskot/Twitter

Síðasta fimmtudag hélt Donald Trump Bandaríkjaforseti fund í Montanaríki, þar sem stuðningsmenn forsetans komu saman og hlýddu á hann tala um ýmis mál, meðal annars árangur sinn í efnahagsmálum frá því hann tók við embætti og hvernig hann rústaði Hillary Clinton í kosningunum árið 2016.

Fagnaðarlæti áhorfendaskarans voru gríðarleg, eins og oft er á þessum fundum forsetans, sem hann heldur fyrir stuðningsmenn sína vítt og breitt um Bandaríkin með reglulegu millibili. Allir á svæðinu virtust taka vel í ræðuhöld forsetans, utan unglingspilts í köflóttri skyrtu, sem stóð beint fyrir aftan forsetann og var mjög áberandi í netútsendingu frá fundinum.

Tyler Linfesty lyfti reglulega augabrúnum og hristi höfuðið yfir orðum forsetans og vakti það kátínu ýmissa netverja sem horfðu á beint streymi frá fundi forsetans. Linfesty, sem er 17 ára gamall, náði þó ekki að vera viðstaddur allan fundinn, því honum var á endanum vísað úr sæti sínu og þar settist í staðinn kona, sem tók mun betur í þau skilaboð sem forsetinn færði stuðningsmönnum sínum af sviðinu.

En hvernig endaði þessi drengur, sem augljóslega er enginn stuðningsmaður Bandaríkjaforseta, í einu af bestu sætum hússins, sem jafnan eru frátekin fyrir heiðursgesti og dygga stuðningsmenn?

New York Times ræðir við Linfesty í dag og hann lýsir því að hann hafi sótt um að fá að vera viðstaddur fund forsetans ásamt vinum sínum, enda hafi hann ekki viljað missa af því að fá að sjá forseta Bandaríkjanna í návígi.

Frá fundinum í Montana á fimmtudag.
Frá fundinum í Montana á fimmtudag. AFP

Honum að óvörum fékk hann svo tölvupóst að morgni fundardags, þar sem honum var tilkynnt að hann fengi að vera í VIP-sætum, sem þýddi að hann fengi bæði að hitta forsetann og að hann og vinir hans fengju sérlega góð sæti.

„Ég held að það hafi verið tilviljun að við enduðum beint fyrir aftan hann í sjónvarpsútsendingunni,“ sagði Linfesty í samtali við New York Times. Hann segir jafnframt að skipuleggjendur viðburðarins hafi beðið fólk að klappa og fagna forsetanum, en að hann sjálfur hafi einfaldlega ekki getað klappað fyrir hlutum sem hann var ekki sammála. Sjálfur vissi hann ekki að hann væri jafn áberandi í útsendingunni og raun bar vitni fyrr en vinir hans sendu honum skilaboð þess efnis meðan á ræðu forsetans stóð.

„Ég var ekkert að reyna að mótmæla, þetta voru bara viðbrögð mín við því sem hann var að segja,“ hefur Times eftir Linfesty, sem segist sjálfur vera sósíaldemókrati og setti raunar upp barmmerki sem lýsti yfir stuðningi við sósíalistahreyfinguna DSA (Democratic Socialists of America) meðan á fundinum stóð.

Stuðningsmenn forsetans á fundinum í Montana.
Stuðningsmenn forsetans á fundinum í Montana. AFP

Síðan var Linfesty á endanum vísað úr sæti sínu og hann færður baksviðs, þar sem lögregluþjónar og fulltrúar úr öryggisteymi forsetans sannreyndu hver hann væri. Eftir um tíu mínútur baksviðs báðu þeir hann svo vinsamlega um að yfirgefa svæðið og koma ekki aftur.

Linfesty virðist njóta þessarar fimmtán mínútna frægðar sem uppákoman í Montana veitti honum; hann hefur bætt við sig tugum þúsunda fylgjenda á twittersíðu sinni síðan á fimmtudagskvöld og nú er prófílmynd hans á samfélagsmiðlinum af honum sjálfum fyrir aftan forsetann, með vandlætingarsvip á andlitinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert