Ákærður fyrir dráp á 137 örnum

Örn af tegundinni Aquila audax. Þeir teljast til verndaðra dýrategunda …
Örn af tegundinni Aquila audax. Þeir teljast til verndaðra dýrategunda í Ástralíu Ljósmynd/Wikipedia.org

Yfirvöld í Ástralíu hafa ákært mann fyrir að bera ábyrgð á dauða að minnsta kosti 137 arna í Viktoríu-fylki í Ástralíu, að því er BBC  greinir frá. Ernirnir, sem eru stærsti ránfugl Ástralíu og eru af tegundinni Aquila audax, teljast til verndaðra dýrategunda.

Hræ fuglanna fundust í apríl og leiddu til húsleitar á nokkrum stöðum, en talið er að maðurinn hafi allt frá því í október 2016 notað eitraða beitu til að drepa fuglana.

Segja yfirvöld í ríkinu að um sé að ræða umfangsmestu eitrun fyrir erni sem þeir hafi nokkurn tímann orðið vitni að, en vel geti verið að mun fleiri fuglar hafi drepist.

Samkvæmt áströlskum lögum varðar dráp á erninum sekt upp á allt að 7.928 ástralska dollara, eða um 650.000 íslenskra króna og er sektað aukalega um 792 dollara fyrir hvern fugl til viðbótar sem er drepinn.

Hræin fundust falin í gróðri á 2.000 hektara svæði í Gippsland og segja yfirvöld manninn hafa verið ákærðan eftir rannsókn sem tók til um 30 manns. Ekki hefur verið greint frá því hver ástæða drápanna sé, en að sögn ástralska ríkisútvarpsins verður áströlskum bændum tíðrætt um ernina sem þeir segja ráðast á lömb.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert