Tortryggja ferðamannaskýringuna

Skjáskot úr viðtalinu við þá Alexander Petrov og Ruslan Boshirov …
Skjáskot úr viðtalinu við þá Alexander Petrov og Ruslan Boshirov á RT sjónvarpsstöðinni um veru þeirra í Bretlandi. Sumir rússneskir fjölmiðlar hafa verið gagnrýnir á þær skýringar sem þar voru gefnar. AFP

Nokkurrar gagnrýni gætir í rússneskum fjölmiðlum um sannleiksgildi viðtals rússnesku ríkissjónvarpsstöðvarinnar RT við mennina tvo sem bresk yfirvöld telja seka um tilræði við rússneska gagnnjósnarann Sergei Skripal. Rússneskur almenningur virðist hins vegar sætta sig við skýringuna.

Skripal og dóttir hans Yulia fundist meðvitundarlaus á bekk í Salisbury í Bretlandi í mars og reyndist hafa verið eitrað fyrir þau með taugaeitrinu novichok.

Mennirnir tveir, Alexander Petrov og Ruslan Boshirov, sem breska lögreglan lýsti eftir vegna tilræðisins, fullyrtu í viðtalinu að þeir hefðu komið til Bretlands sem ferðamenn og að tilgangur ferðar þeirra til Salisbury, þar sem Skripal bjó, hafi verið að skoða dómkirkjuna sem státar af 123 metra háum turni.  Þeir höfnuðu alfarið að þeir hefðu farið þangað í þeim tilgangi að eitra fyrir Skripal.

Rússneska dagblaðið Kommersant vakti engu að síður máls á því af hverju mennirnir hefðu ekki sýnt skilríki eða tjáð sig að öðru leyti um vinnu sína eða einkalíf. Þeir Petrov og Boshirov sögðust í viðtalinu vera sjálfstætt starfandi innan líkamsræktar- og fæðubótarefnageirans.

Viðskiptablaðið RBK sagðist þá ekki finna neitt fyrirtæki skráð undir nöfnum þeirra tveggja neins staðar í Rússlandi. Eins sagði blaðið athyglisvert að þeir hefðu ekki lagt fram neina sönnun þess að þeir hefðu yfirhöfuð komið í dómkirkjuna í Salisbury, sem þeir nefndu þó sem helsta aðdráttarafl borgarinnar.

Þá sagði dagblaðið Vedomosti í fyrirsögn á umfjöllun sinni um útsendinguna að þetta hefði verið „viðtal, en engar upplýsingar“.

Venjulegt fólk sem lenti í vanda

Almennir borgarar í Moskvu sem AFP-fréttastofan ræddi við virtust hins vegar margir til í að trúa skýringum mannanna.

„Ég held að þeir séu að segja satt,“ sagði athafnamaðurinn Leonid. „Þeir eru bara venjulegt fólk sem lenti í vanda og ég er viss um að þeim líður illa núna. Þeir útskýrðu þetta skýrt og einfaldlega í gær. Af hverju þeir fóru þangað, hvað þeir voru að gera þar og hvernig veðrið var.“

Það vakti athygli margra er mennirnir sögðust hafa reynt að heimsækja dómkirkjuna tvo daga í röð, eftir að þeir hefðu þurft að snúa frá fyrri daginn vegna mikillar snjókomu.

Þeir listuðu upp staðreyndir um þá „fallegu borg“ sem Salisbury væri og að meðmæli vina hefðu orðið til þess að þeir fóru þangað.

Margarita Simonyan, yfirmaður RT sem stjórnaði viðtalinu, gaf síðar í skyn á Twitter að mennirnir kynnu að vera samkynhneigt par.

Maria Kazimi, sem er nemandi í Moskvu, hafnaði alfarið að þeir væru annaðhvort samkynhneigt par eða njósnarar sendir til að drepa.

„Af hverju geta ekki tveir vinir farið til borgar og átt þar stundir saman,“ spurði hún. „Ég held að þeir séu bara tveir menn sem var kennt um þetta. Nú eru þeir í áfalli, þeir eru hræddir og vita ekki hvað þeir eiga að gera.“

Bresk stjórnvöld hafa sagt viðtalið fullt af lygum og að það sé móðgun við gáfnafar almennings, en rússnesk yfirvöld hafa á móti sagt fullyrðingar breskra yfirvalda að um lygar sé að ræða vera „fáránlegar“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert