Moon reynir að blása lífi í viðræðurnar

Moon Jae-in forseti Suður-Kóreu og Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu keyra …
Moon Jae-in forseti Suður-Kóreu og Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu keyra um götur Pyongyang í dag. AFP

Þúsundir íbúa í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, fögnuðu ákaft í vel skipulögðum röðum er leiðtogar Kóreuríkjanna, Kim Jong-un og Moon Jae-in, keyrðu saman um götur borgarinnar í dag.

Kim tók á móti Moon á alþjóðaflugvellinum í Pyongyang í morgun með mikilli viðhöfn, enda er þetta í fyrsta sinn frá árinu 2007 sem leiðtogi Suður-Kóreu sækir höfuðborg norðursins heim. 

Búist er við að viðræður leiðtoganna í vikunni muni að mestu snúast um tilraunir forseta Suður-Kóreu til þess að blása lífi í kjarnorkuafvopnunarviðræður Norður-Kóreu og Bandaríkjanna, sem Kim Jong-un tók vel í eftir fund hans með Donald Trump Bandaríkjaforseta í júní.

Pattstaða í kjarnorkuviðræðum

Síðan þá hafa stjórnvöld í Washington og Pyongyang deilt um hvernig standa skuli að kjarnorkuvopnaafvæðingu Kóreuskagans.

Bandaríkjamenn krefjast þess að Norður-Kórea losi sig einhliða við kjarnorkuvopn sín, en Norður-Kórea krefst þess að fyrst verði formleg yfirlýsing um lyktir Kóreustríðsins gefin út.

Viðræðurnar hafa því verið í hálfgerðri pattstöðu síðan í júní og í dagblaðinu Rodong Sinmun, málgagni norður-kóreskra yfirvalda, segir í dag að öll sök á því liggi hjá yfirvöldum í Washington.

Moon ætlar nú að reyna að liðka fyrir þessum viðræðum, áður en að hann sjálfur fundar með Donald Trump Bandaríkjaforseta í New York síðar í mánuðinum.

Leiðtogunum tveimur var ákaft fagnað af íbúum Pyongyang, sem voru …
Leiðtogunum tveimur var ákaft fagnað af íbúum Pyongyang, sem voru í sínu fínasta pússi í tilefni dagsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert